Kallað eftir samræmi

Fregn­ir af áform­um Íslands­banka um að lækka höfuðstól lána og breyta mynt­körfulán­um yfir í óverðtryggð lán í krón­um hafa vakið mikla at­hygli, ekki síst hjá þeim tugþúsund­um fast­eig­enda­eig­enda sem eru með úti­stand­andi lán og sí­fellt þyngri greiðslu­byrði. Marg­ir spyrja sig hvað aðrar lána­stofn­an­ir ætla að gera og hvort ekki þurfi að gæta jafn­ræðis meðal skuld­ara.

Umræða um niður­fell­ingu skulda hef­ur farið fram inn­an banka­kerf­is­ins og sam­kvæmt heim­ild­um blaðsins ræddu stjórn­end­ur bank­anna sín á milli í gær án þess að ein­hver niðurstaða hafi feng­ist. Kallað er eft­ir skýrri stefnu frá stjórn­völd­um um hvort og til hvaða al­mennra aðgerða verður gripið. Bent er á að ríkið komi að öll­um stærstu lán­veit­end­un­um, þ.e. Íbúðalána­sjóði og rík­is­bönk­un­um, og sam­ræmi verði að vera þeirra á milli og sem mest jafn­ræði á milli lán­tak­enda.

Svig­rúm lána­stofn­ana er enn­frem­ur mis­mikið til ein­hverra af­skrifta. Efna­hags­reikn­ing­ur Íslands­banka og Nýja Kaupþings liggja fyr­ir og þar er svig­rúmið sagt meira en t.d. hjá Lands­bank­an­um. Þá er sam­setn­ing lána mis­mun­andi eft­ir stofn­un­um þar sem t.d. eng­in mynt­körfulán hafa verið í boði hjá Íbúðalána­sjóði og van­skil ekki eins mik­il og hjá bönk­un­um, þar sem hærri lán voru einnig veitt.

Her­mann Björns­son, fram­kvæmda­stjóri viðskipta­banka­sviðs Nýja Kaupþings, seg­ir bank­ann ekki hafa ákveðið sam­bæri­lega leið og Íslands­banki, að lækka höfuðstól lána og breyta geng­is­tryggðum er­lend­um íbúðalán­um í óverðtryggð krónu­lán. Íslands­banki hafi held­ur ekki lagt öll spil­in á borðið og margt óljóst ennþá. Þessi mál séu hins veg­ar til stöðugr­ar skoðunar inn­an bank­ans en Kaupþing kynnti fyrr í sum­ar svo­nefnda skuldaaðlög­un, þar sem viðskipta­vin­um er boðið að greiða af íbúðalán­um sam­kvæmt greiðslu­getu. Til slíkra sér­tækra aðgerða geti bank­inn gripið en það sé á for­ræði stjórn­valda en ekki bank­anna að ákveða al­menn­ar niður­færsl­ur á skuld­um fólks. Það sé ekki verk­efni lána­stofn­ana að fara í sam­keppni um úrræði vegna greiðslu­erfiðleika fólks.

Hjá Lands­bank­an­um feng­ust þau svör að skuldaaðlög­un væri til skoðunar inn­an bank­ans en ekk­ert nán­ar gefið upp að sinni eða hvort far­in yrði svipuð leið og Íslands­banki hef­ur kynnt.

Gylfi Magnús­son viðskiptaráðherra seg­ir það já­kvætt ef bank­arn­ir taka frum­kvæði í að kynna nýj­ar lausn­ir fyr­ir fólk í greiðslu­erfiðleik­um. Stjórn­völd styðji eft­ir megni slíka viðleitni og geti með ýms­um hætti liðkað til fyr­ir nýj­um úrræðum. Öll úrræði verði þó á ábyrgð fyr­ir­tækj­anna og byggj­ast á viðskipta­leg­um for­send­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert