Fregnir af áformum Íslandsbanka um að lækka höfuðstól lána og breyta myntkörfulánum yfir í óverðtryggð lán í krónum hafa vakið mikla athygli, ekki síst hjá þeim tugþúsundum fasteigendaeigenda sem eru með útistandandi lán og sífellt þyngri greiðslubyrði. Margir spyrja sig hvað aðrar lánastofnanir ætla að gera og hvort ekki þurfi að gæta jafnræðis meðal skuldara.
Umræða um niðurfellingu skulda hefur farið fram innan bankakerfisins og samkvæmt heimildum blaðsins ræddu stjórnendur bankanna sín á milli í gær án þess að einhver niðurstaða hafi fengist. Kallað er eftir skýrri stefnu frá stjórnvöldum um hvort og til hvaða almennra aðgerða verður gripið. Bent er á að ríkið komi að öllum stærstu lánveitendunum, þ.e. Íbúðalánasjóði og ríkisbönkunum, og samræmi verði að vera þeirra á milli og sem mest jafnræði á milli lántakenda.
Svigrúm lánastofnana er ennfremur mismikið til einhverra afskrifta. Efnahagsreikningur Íslandsbanka og Nýja Kaupþings liggja fyrir og þar er svigrúmið sagt meira en t.d. hjá Landsbankanum. Þá er samsetning lána mismunandi eftir stofnunum þar sem t.d. engin myntkörfulán hafa verið í boði hjá Íbúðalánasjóði og vanskil ekki eins mikil og hjá bönkunum, þar sem hærri lán voru einnig veitt.
Hermann Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Nýja Kaupþings, segir bankann ekki hafa ákveðið sambærilega leið og Íslandsbanki, að lækka höfuðstól lána og breyta gengistryggðum erlendum íbúðalánum í óverðtryggð krónulán. Íslandsbanki hafi heldur ekki lagt öll spilin á borðið og margt óljóst ennþá. Þessi mál séu hins vegar til stöðugrar skoðunar innan bankans en Kaupþing kynnti fyrr í sumar svonefnda skuldaaðlögun, þar sem viðskiptavinum er boðið að greiða af íbúðalánum samkvæmt greiðslugetu. Til slíkra sértækra aðgerða geti bankinn gripið en það sé á forræði stjórnvalda en ekki bankanna að ákveða almennar niðurfærslur á skuldum fólks. Það sé ekki verkefni lánastofnana að fara í samkeppni um úrræði vegna greiðsluerfiðleika fólks.
Hjá Landsbankanum fengust þau svör að skuldaaðlögun væri til skoðunar innan bankans en ekkert nánar gefið upp að sinni eða hvort farin yrði svipuð leið og Íslandsbanki hefur kynnt.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir það jákvætt ef bankarnir taka frumkvæði í að kynna nýjar lausnir fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Stjórnvöld styðji eftir megni slíka viðleitni og geti með ýmsum hætti liðkað til fyrir nýjum úrræðum. Öll úrræði verði þó á ábyrgð fyrirtækjanna og byggjast á viðskiptalegum forsendum.