Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarna daga haft afskipti af 12 einstaklingum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna þess að greitt hafði verið fyrir farmiða þeirra með stolnum greiðslukortum. Vill lögreglan vara fólk við því að kaupa flugfarseðla af óþekktum aðilum á netinu.
Fólkið virðast ekki tengjast innbyrðis. Allir skýri frá viðskiptum sínum með flugfarseðlana á svipaðan hátt og virðist trúverðugir.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að fólkið segist hafa keypt farmiða sína á netinu af óþekktum millilið, sem hafi boðið bauð flugferðir á mjög góðu verði („last-minute“ miða). Fólkið hafi síðan fengið sent bókunarnúmer með tölvupósti mjög skömmu fyrir brottför og hafi verið sagt að fara í flugstöðina, sýna bókunarnúmerið og framvísa vegabréfi.
Þegar fólkið hafi komið í flugstöðina hafi verið þar fyrirliggjandi upplýsingar um að farmiðarnir hefðu verið greiddir með stolnum greiðslukortum og fólkinu meinað að halda áfram för sinni. Allir sem hafi verið stöðvaðir séu af erlendu bergi brotnir og flest bendi til að svikahrapparnir séu erlendis.
Komið hefur í ljós að fleiri en þessir 12 hafa keypt farmiða með sama hætti að undanförnu en svikin ekki komist upp í tæka tíð.
Af þessu tilefni vill Lögreglan á Suðurnesjum vara fólk við því að kaupa flugfarseðla af óþekktum aðilum á internetinu og beina viðskiptum sínum beint til flugfélaganna eða annarra þekktra viðskiptaaðila.