Sigmundur Ernir baðst afsökunar

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson. mbl.is/Ómar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, bað um orðið í upphafi þingfundar í dag og baðst afsökunar á mistökum, sem hann hefði gert í ræðistóli Alþingis síðastliðinn fimmtudag.

Sagðist Sigmundur Ernir, vegna veru sinnar í pontu síðastliðin fimmtudag, vilja taka fram að þar hafi sér orðið á mistök, sem beri að biðjast afsökunar á. „Er það hér með góðfúslega gert," sagði Sigmundur Ernir. 

Sigmundur Ernir var sakaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hann talaði úr ræðustól Alþingis að kvöldi 20. ágústs. Í yfirlýsingu, sem Sigmundur Ernir sendi frá sér í gær viðurkenndi hann að hafa neytt víns með mat fyrr um kvöldið en ekki kennt áhrifa þess. Í svæðisútvarpi Ríkisútvarpsins á Austurlandi fyrr í vikunni var haft eftir honum að hann hefði ekki bragðað áfengi áður en hann steig í ræðustól.

Þá sagðist DV hafa heimildir fyrir að þingmaðurinn hafi verið „æði slompaður“ í veislu fyrr um kvöldið. Í tilkynningu sinni skrifar Sigmundur að hann hafi verið þreyttur og að honum hafi verið heitt í hamsi vegna ítrekaðra frammíkalla þingmanna. 

Ölvun í ræðustól Alþingis þekkt

„Þetta hefur þekkst og það voru þónokkur brögð að þessu þann tíma sem ég var á þingi,“ segir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmaður, inntur um hvort hann kannist við að þingmenn stígi ölvaðir í pontu.

Kristinn sat á þingi frá árinu 1991 þar til í ár, ýmist fyrir Alþýðubandalag, Framsóknarflokk, Frjálslynda flokkinn eða utan flokka. Kveður hann að þetta hafi liðið undir lok með tíunda áratugnum. „Þetta er nokkuð sem þingmenn eiga ekki að gera og þeir sem hafa brennt sig hafa lært á því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka