Hjálparstofnanir fengu í gær góðan stuðning fyrirtækja til að hjálpa fjölskyldum skólabarna sem geta ekki staðið straum af kostnaði vegna byrjunar skólaársins.
Fjölskylduhjálp Íslands fékk kl. 14 í gær afhent gjafabréf frá Subway á Íslandi að heildarandvirði 1,3 milljónir króna. Hvert gjafabréf hljóðaði upp á 15 þúsund króna úttekt í Pennanum. Auk þess afhenti Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi, Fjölskylduhjálpinni 400 gjafabréf upp á Subway-báta. Einnig færði Penninn Fjölskylduhjálpinni 100 skólatöskur að gjöf í gær.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, sagði að gjafakortin hefðu öll verið uppurin kl. 16 í gær. Skólatöskurnar voru einnig að klárast síðdegis í gær.
„Það vantar miklu meira til að hjálpa þeim sem eru að biðja um aðstoð í dag,“ sagði Ásgerður. Hún sagði að í þau 13 ár sem hún hefði unnið við fjölskylduhjálp hefðu alltaf verið brögð að því að fólk gæti ekki keypt skólavörur fyrir börnin sín. Hljótt hafi verið um þennan hóp fólks hingað til. „Nú er þessi umræða komin í loftið sem er mjög jákvætt, því þá kemur fram þessi samhjálp.“
Einstaklingar hafa einnig styrkt fjölskyldur sem geta ekki staðið straum af námskostnaði barna sinna. Fjölskylduhjálpin hefur haft milligöngu um slíka aðstoð.
Eymundsson afhenti Hjálparstarfi kirkjunnar Jeva-skólatöskur sem söfnuðust á skiptitöskumarkaði Eymundsson. Tekið var á móti töskunum gegn inneignarnótu í Eymundsson. Halldóra Lárusdóttir, vörustjóri hjá Eymundsson, sem átti frumkvæði að þessari gjöf, afhenti skólatöskurnar í gær. Eymundsson gaf einnig nýjar skólavörur að andvirði 750.000 krónur til Hjálparstarfs kirkjunnar.