10 vikna umfjöllun að ljúka

Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli Alþingis í morgun.
Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli Alþingis í morgun.

Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, for­sæt­is­ráðherra, sagði á Alþingi í morg­un, að 10 vikna um­fjöll­un Alþing­is um rík­is­ábyrgð vegna Ices­a­ve-lána­samn­ing­anna væri nú að ljúka. Sagði hún verk­efnið nú að sann­færa viðsemj­end­ur Íslands um að þjóðin væri ekki að hlaup­ast und­an ábyrgð held­ur að axla hana en þó með þeim hætti að und­ir henni yrði risið.

Sagðist Jó­hanna vera vongóð um að Bret­ar og Hol­lend­ing­ar sýni mál­inu nú fulla sann­girni og skiln­ing. Alþekkt væri að þjóðþing settu fyr­ir­vara við alþjóðlega samn­inga.

Jó­hanna sagði, að rík­is­ábyrgðin vegna Ices­a­ve væri stærsta ein­staka fjár­hags­lega skuld­bind­ing, sem ís­lenska ríkið hefði tekið á sig. Ices­a­ve-deil­an væri eitt erfiðasta mál sem ís­lensk stjórn­völd hefðu tek­ist á við á síðari tím­um, ekki síst vegna þess að skuld­bind­ing ætti ræt­ur að rekja til óá­byrgr­ar ís­lenskr­ar banka­stofn­un­ar á er­lendri grund. Mikl­ir hags­mun­ir væru í húfi fyr­ir Ísland og það hefði reynt mjög á þing og þjóð.

„Við skul­um snúa okk­ur að því að hleypa krafti í ís­lenskt efna­hags­líf þannig að eng­ar byrðar verði of þung­ar á næstu 15 árum," sagði Jó­hanna.

Rík­is­stjórn­in þarf að bera málið sjálf 

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði að eng­um dyld­ist leng­ur, að ekki væri á ferðinni sama málið og rík­is­stjórn­in lagði upp með í júlí. Sagði hann, að rík­is­stjórn­in hefði fallið á þessu prófi með því að fall­ast á skuld­bind­ing­ar vegna Ices­a­ve án nokk­urra fyr­ir­vara. Þingið hefði tekið völd­in í mál­inu.

Bjarni sagði, að meg­inniðurstaðan sé að eðli­legt sé að samn­ing­arn­ir verði end­ur­gerðir. Í þeim viðræðum yrðu samn­ing­arn­ir lagaðir að þeim sjón­ar­miðum, sem komið hefðu fram í um­fjöll­un Alþing­is. Sagðist Bjarni taka und­ir með Jó­hönnu, að Bret­ar og Hol­lend­ing­ar eigi að horf­ast í augu við að fyr­ir­var­ar Íslend­ing­ar séu sann­gjarn­ir og að þeir eigi að fall­ast á þá. Verði það ekki niðurstaðan verði Íslend­ing­ar að fá skorið úr því fyr­ir hlut­laus­um dóm­stól­um hverj­ar skuld­bind­ing­ar Íslands séu á grund­velli Evr­ópu­til­skip­un­ar um inni­stæðitrygg­inga­kerfi.

Sagði Bjarni, að sjálf­stæðis­menn myndu styðja breyt­ing­ar­til­lög­urn­ar við frum­varpið en rík­is­stjórn­in þurfi sjálf að bera málið uppi við end­an­lega af­greiðslu.

Enn ber­ast ábend­ing­ar um galla 

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði að enn bær­ust ábend­ing­ar um gall­ana á Ices­a­ve-samn­ing­un­um. Síðast í nótt hefði hann fengið ábend­ing­ar frá manni, sem hefði skoðað samn­ing­ana og fundið á þeim slíka galla, að það ætti að fresta umræðunni í dag.

Sagði Sig­mund­ur Davíð, að ekki einn ein­asti maður með mennt­un í ensk­um lög­um væri bú­inn að skoða fyr­ir­var­ana fyr­ir Alþingi.  

Hann sagði að þær fjár­hags­legu skuld­bind­ing­ar, sem fæl­ust í Ices­a­ve-samn­ing­un­um, myndu setja allt fé­lags­lega kerfið á Íslandi í upp­nám. Nefndi Sig­mund­ur Davíð sem dæmi, að aðeins 13 klukku­stunda vext­ir af Ices­a­ve-lán­inu hafi sett allt í upp­nám inn­an lög­regl­unn­ar vegna niður­skurðar þar. 

Holta-Þórir Ices­a­ve-máls­ins

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, fjár­málaráðherra, sagði að stór orð hefðu fallið og mikl­ar túlk­an­ir og sögu­skýr­ing­ar komið fram. Þær hefðu hins veg­ar verið um lána­samn­ing­inn en ekki vanda­málið sjálft.

„Ég tel ekki, að sú sögu­skýr­ing muni halda lengi, að gera þá að söku­dólg­um í þessu máli, sem hafa reynt að leysa það," sagði Stein­grím­ur.

Það væri þó ánægju­legt, að flest­ir teldu sig hafa náð mikl­um ár­angri og að málið hefði verið betr­um­bætt. Þá gætu vænt­an­lega flest­ir verið ánægðir ef þeir telji að þeir hafi lagt gott að mörk­um, með sín­um störf­um. „Og flest­ir væru orðnir ein­hvers­kon­ar sig­ur­veg­ar­ar í mál­inu, nema nátt­úru­lega ég," sagði Stein­grím­ur.  Sagðist hann taka það hlut­skipti að sér með glöðu geði að setj­ast yst­ur virðing­ar­manna. „Ég skal vera Holta-Þórir þess máls og setj­ast fjærst há­borðinu ef það gleður aðra. Mér hef­ur aldrei gengið neitt annað til í þessu máli en það eitt að leysa það," sagði Stein­grím­ur.

Tíma­bært að hefja end­ur­reisn­ina

Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Borg­ara­hreyf­ing­ar­inn­ar, sagði að kom­inn væri tími til að rík­is­stjórn­in setti heim­il­in á odd­inn. Kom­inn væri tími til að hefja end­ur­reisn­ina.

Þrá­inn Bertels­son, óháður þingmaður, sagðist hafa skoðað Ices­a­ve-samn­ing­inn á raun­sæj­an hátt og litið hann realpóli­tísk­um aug­um.  Sín niðurstaða væri sú, að samn­ing­ur­inn væri verri lausn en vanda­málið sjálft væri í raun­inni. Því muni hann greiða at­kvæði gegn frum­varp­inu um rík­is­ábyrgð.

Bein út­send­ing frá Alþingi

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert