Níu starfsmenn ísfirska fyrirtækisins 3X Technology fengu uppsagnarbréf í morgun. Alls hefur fyrirtækið því sagt upp ellefu starfsmönnum á árinu en 45 manns störfuðu hjá því í vor.
Jóhann Jónasson, framkvæmdastjóri 3X Technology, segir uppsagnirnar tilkomnar vegna samdráttar í sölu á vörum fyrirtækisins. Starfsmennirnir sem fengu uppsagnarbréf í morgun eru á eins til þriggja mánaða uppsagnarfresti. Jóhann segir að verði einhverjar breytingar til bóta á uppsagnartímanum, verði uppsagnirnar endurskoðaðar.
„Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að aðstæður geta breyst á mjög skömmum tíma en sem stendur er ekkert útlit fyrir það,“ segir Jóhann. Helmingur af veltufé fyrirtækisins hefur verið á innanlandsmarkaði en á meðan ástandið er með þeim hætti í íslenskum sjávarútvegi, eru margir þættir óuppgerðir og óljósir í rekstri 3X Technology.
„Það er lítið vit í að fjárfesta í slíkri framtíð. Það er mikil óvissa um fyrirkomulag kvótamála og mjög hátt vaxtastig. Það eru margir hlutir óuppgerðir á milli sjávarútvegsins og bankanna. Fyrr en það kemst á hreint, þá held ég að sjávarútvegurinn á Íslandi sé ekki að hugsa um nýsköpun í vöruþróun en það er það sem við treystum á,“ segir Jóhann.
Jóhann segir samdrátt vera á flestum þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á erlendis t.d. í Bretlandi, á Spáni og í Kanada. „En auðvitað sjáum við teikn á lofti þessi misserin um að þeir markaðir séu á uppleið en við höfum ekkert fast í hendi enn sem komið er. Það verður því ennþá aðhald á meðal félaga sem eru að vinna á tækjamarkaði,“ segir Jóhann.
Hnignun iðnaðar á landsbyggðinni
Jóhann vandar stjórnvöldum ekki kveðjurnar þegar kemur að því umhverfi sem atvinnulífinu er skapað. Hann segir að stjórnvöld hefðu fyrir löngu átt að grípa til aðgerða til að lina þrautir atvinnulífsins.
„Menn eru orðnir mjög bitrir út í stjórnvöld. Ég er algjörlega búinn að missa trú á þeim og ég sé ekkert sem bendir til þess að tekið verði á vandamálum atvinnulífsins, ekki síst iðnaðar. Aðgerðaleysið og ráðaleysið er algert á stjórnarheimilinu. Ég held hreinlega að stjórnmálamenn geri sér hvorki grein fyrir hversu alvarleg staðan er né heldur hversu víðtæk áhrif þetta hefur á þjónustugreinar í kringum iðnfyrirtækin, ekki síst sjávarútvegsfyrirtæki,“ segir Jóhann Jónasson.
Hann segir allt stefna í eina átt hvað iðnað á Íslandi varðar.
„Við stöndum vaktina svo lengi sem það er stætt. En framtíð iðnaðar á landsbyggðinni er ekki björt, mér sýnist búið að flauta hann af að óbreyttu. Hnignun er lýsingarorð sem nota má yfir íslenskan iðnað á landsbyggðinni. Hann fer halloka vegna þess að honum eru ekki sköpuð samkeppnishæf skilyrði og það mun ekki breytast sýnist mér, meðan þessi ríkisstjórn er við völd,“ segir Jóhann.