Bretar skoða fyrirvarana

Breska fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir, að þeir fyrirvarar, sem Alþingi gerði við ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamningana, verði skoðaðir vandlega. Samkvæmt frumvarpinu tekur ríkisábyrgðin ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa samþykkt fyrirvarana.

„Eins og búast má við mun Bretland skoða vandlega þau skilyrði, sem láninu hafa verið sett til að tryggja að þeir séu raunhæfir," segir í yfirlýsingunni, sem breska ríkisútvarpið BBC vitnar til.

„Þetta lán er mikilvægt og jákvætt skref í rétta átt fyrir alla þá sem tengjast málinu og það er mikilvægt að við tökum okkur tíma til að fara yfir málið til að tryggja bestu niðurstöðuna fyrir alla aðila."

Talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins sagði, að samþykkt Alþingis á frumvarpinu væri afar jákvæð og að hollensk stjórnvöld myndu ræða fyrirvarana, sem fylgja ríkisábyrgðinni, við íslensk stjórnvöld.

Alþingi samþykkti frumvarp um ríkisábyrgðina í morgun með 34 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna tveggja. 14 þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en 14 sátu hjá.

Við fall gamla Landsbanka Íslands urðu inneignir 340 þúsund sparifjáreigendur óaðgengilegir í útbúum bankans í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð þessara innistæðna nam jafnvirði rúmlega 1200 milljörðum króna. Tryggingasjóður innstæðueigenda ábyrgist 20.887 evrur á hvern reikning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka