Fara í greiðsluverkfall 1. okt

Frá mótmælum HH á Austurvelli í sumar
Frá mótmælum HH á Austurvelli í sumar mbl.is/Kristinn

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) boðar til tveggja vikna greiðsluverkfalls frá og með 1. október næstkomandi. Þetta kom fram á blaðamannfundi samtakanna á kaffihúsinu Amokka klukkan tíu í morgun. 77% 2500 félaga samtakanna lýstu sig fyrr í sumar fylgjandi verkfallinu.

„Við hefum fengið mikinn hljómgrunn í samfélaginu fyrir okkar sjónarmið,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson sem situr í verkfallsstjórn HH. Vonir standa til að fimm til tíu þúsund manns taki þátt í verkfallinu en verkfallsstjórn segir ómögulegt að segja til um fjöldann.

Tilgangur aðgerðana mun vera að knýja þá sem samtökin telja gagnaðila sína til samninga við sig fyrir hönd íslenskra skuldara. „Við teljum að það sé miklu farsælla fyrir samfélagið að þessi stóru vandamál sem tengjast lánum almennings séu leyst með samkomulagi frekar en í gríðarlegum dýrum dómsmálum sem enginn græðir á,“ sagði stjórnarmeðlimur á fundinum.

Verkfallsstjórnin gekk á fund Ríkissáttasemjara snemma í morgun og baðst þess að hann miðlaði málum. Verkfallsstjórnin segir að þeirra gagnaðilar séu fyrst og fremst ríkisvaldið, samtök fjármálafyrirtækja og landsamtök lífeyrissjóða.

Sammæli var meðal stjórnarmeðlima að sáttasemjari hefði tekið vel í beiðni samtakanna. Hann hafi þó kvaðst ekki hafa boðvald yfir neinum í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert