InDefence: Aum frammistaða stjórnvalda í Icesave

InDefence hópurinn harmar auma frammistöðu íslenskra stjórnvalda á öllum stigum Icesave málsins. Í yfirlýsingu hópsins segir að fyrirvarar við frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Hollendinga og Breta séu ekki nægilega sterkir eða ótvíræðir til þess að tryggja að útkoman verði sanngjörn og viðráðanleg fyrir íslensku þjóðina.

Í yfirlýsingu InDefence segir að hópurinn hafi, allt frá undirskrift Icesave-samninganna við Bretland og Holland þann 5. júní s.l., haldið því fram að samningarnir séu einhliða og ótækir fyrir Íslendinga. Samningarnir taki m.a. ekki nægilegt mið af því tjóni sem íslenskt efnahagslíf varð fyrir við beitingu hryðjuverkalaga breskra stjórnvalda 8. október 2008, af þeim efnahagslegu atriðum sem koma fram í Brussel viðmiðunum frá 14. nóvember 2008 og hinni veiku getu íslenska ríkisins að greiða skuldir í erlendri mynt.

IndDefence segir að farsælast hefði verið fyrir Alþingi Íslendinga að afgreiða ekki frumvarpið um ríkisábyrgð, en þess í stað að samþykkja þingsályktunartillögu, þar sem farið væri fram á nýjar samningaviðræður við bresk og hollensk stjórnvöld.

„InDefence hópurinn harmar auma frammistöðu íslenskra stjórnvalda á öllum stigum Icesave málsins. Upphafið má að hluta rekja til vanræktrar eftirlitsskyldu. Í kjölfarið kom svo skipun fáliðaðrar og reynslulítillar samninganefndar með allt of þröngt samningsumboð, leyndarhyggja og feluleikur með grundvallar gögn málsins, og síðast en ekki síst, málflutningur sem virtist taka meira mið af þörfum Breta og Hollendinga heldur en hagsmunum Íslendinga,“ segir í yfirlýsingu InDefence.

Það er mat hópsins að þeir fyrirvarar sem nú eru í frumvarpinu um ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna séu til bóta þrátt fyrir að um sé að ræða pólitíska málamiðlun sem ekki gangi jafn langt og æskilegt væri. Samþykki frumvarpsins með þessum fyrirvörum geri eftir sem áður ráð fyrir því að íslensk stjórnvöld greiði alla kröfuna, án þess að tryggja rétt Íslendinga til að fá skorið úr um réttmæti hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert