Fréttaskýring: Leggja sig fram við að greiða niður lánin

Mikið ójafnvægi er á fasteignamarkaði sem stendur.
Mikið ójafnvægi er á fasteignamarkaði sem stendur. mbl.is/Árni Sæberg

Það er tilfinning okkar, sem erum að vinna með fólki að lausnum vegna greiðsluerfiðleika, að staðan sé að þyngjast þessa dagana,“ segir Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Starfsmönnum stofunnar, sem er samstarfsvettvangur lánastofnana, lífeyrissjóða og fleiri aðila, hefur fjölgað mikið samhliða auknum vandamálum eftir hrun bankanna í október í fyrra. Í byrjun október í fyrra voru starfsmennirnir sjö en í dag eru þeir 31. „Það verður ekki annað sagt en að það sé nóg að gera og álagið er stundum mikið enda er það erfitt andlega fyrir fólk að eiga í fjárhagserfiðleikum.“

Enn yfir 80% í skilum

Þótt erfiðleikarnir við að greiða af lánum, og þá einkum húsnæðislánum, séu miklir er augljóst að fólk leggur mikið á sig við að greiða lánin niður. Þrátt fyrir kaupmáttarrýrnun, hækkandi verðlag og almennt þrengri fjárhagsstöðu reynir fólk eftir fremsta megni að halda áfram að greiða af lánum. Ljóst er þó að sá tímapunktur kemur, að aðgerða verður þörf. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær, er fjórðungur heimila í landinu með húsnæðislánaskuldir yfir 500% af árstekjum. Þar af eru um 8% með 1.000% af ársráðstöfunartekjum.

Þrátt fyrir þessa miklu skuldsetningu, sem að miklu leyti má rekja til hruns gjaldmiðilsins, greiðir fólk af lánum. Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum sem endurreistir voru á grunni hinna föllnu banka greiða 70-90% af viðskiptavinum þeirra enn af lánum sínum án þess að nýta sér úrræði bankans til þess að létta sér lífið. Staðan er betri hjá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði, þar sem stærri hluti viðskiptavina hefur staðið í skilum.

Vandamálin sem við blasa snúast þó ekki öll um að ná saman endum fyrir hver mánaðamót. „Það er ekki síst vonleysi sem leggst þungt á fólk, af því að það sér ekki út úr vandamálum sínum, þótt það geti greitt af lánum eftir að hafa nýtt sér úrræði sem boðið er upp á. Þess vegna er mikilvægt að gripið sé til aðgerða, ekki síst til þess að fólk geti gert raunhæfar áætlanir. Það hefur mikið að segja.“

Tölur um vanskil liggja ekki fyrir enn, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Líklegt er þó að tölur þar um verði birtar von bráðar. Fyrirtækið Credit Info hefur einnig fylgst náið með vanskilum heimila og fyrirtækja en nýjar tölur um stöðu mála eins og hún er í dag liggja ekki fyrir enn.

Fastlega er búist við að vanskil aukist í vetur. Þegar nýju bankarnir hafa fengið traustari grundvöll, með efnahagsreikningi og skýrari eignastöðu, þá verða þeir í betri stöðu til þess að taka ákvarðanir um hvernig er best að koma til móts við skuldugt fólk og fyrirtæki.

Óvissan mikil

Horfur á fasteignamarkaði eru um margt óljósar. Fasteignverð hefur fallið um 31 prósent að raunvirði síðan um mitt ár 2007, þegar það náði hæstu hæðum.

Seðlabanki Íslands hefur spáð því að fasteignaverð muni lækka um tæplega 50 prósent fram til loka árs 2011. Þróun fasteignaverðs mun skipta miklu máli fyrir alla þá sem eru að greiða af húsnæðislánum, þar sem eiginfjárstaða skuldara versnar eftir því sem verðið lækkar. Höfuðstóll lána hækkar frekar en lækkar, þar sem lánin eru verðtryggð. Verðbólga mældist til að mynda 0,52 prósent í ágúst sem þýðir að höfuðstóll láns upp á 20 milljónir króna hækkar um rúmlega 100 þúsund krónur. Ef verðhjöðnun verður á næstu mánuðum þá gæti höfuðstóll lána hins vegar lækkað. Þar mun gengi krónunnar ráða miklu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert