„Þeir sem stóðu að þessu máli höfðu ekki tryggt meirihluta fyrir því á þinginu, hvað þá samstöðu í stjórninni,“ sagði Bjarni Benediktsson þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins í þriðju og síðustu umræðu Alþingis í gær um frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamninganna við Breta og Hollendinga.
Bjarni sagði þá samstöðu sem myndast hefði um málið ekki til komna vegna vilja yfirvalda til samvinnu. „Nei, hún verður til vegna þess að í þinginu myndaðist nýr meirihluti sem tók völdin af ríkisstjórninni í málinu, breytti frumvarpinu og setti girðingar, setti öryggisnet í þetta mál, sem breyta öllum grundvallarforsendum þess og koma til móts við, eins og hægt er, hagsmuni Íslendinga til lengri tíma,“ sagði Bjarni. Meirihluti fjárlaganefndar lagði fram nýjar breytingartillögur við frumvarpið en verulegar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í annarri umræðu.
Samstaða hefur verið meðal allra flokka á þingi um Icesave-málið utan Framsóknarflokksins. „Icesave-málið er ekki aðeins eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur þurft að ræða heldur um leið eitt mesta hneykslismál, hugsanlega mesta hneyksli, sem við höfum horft upp á í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins. Hann sagði stjórnvöld hafa brugðist grundvallarskyldu sinni í málinu og ekki varið þjóð sína. „Þvert á móti hafa þau varið mjög hart málstað andstæðinga okkar í þessu máli,“ sagði Sigmundur.
Atkvæði um breytingartillögur um Icesave-samninginn verða greiddar í dag og síðan verða greidd atkvæði um frumvarpið í heild.