Ögmundur er ekki vonsvikinn

Ögmundur Jónasson, eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gagnrýndi Icesave-samninginn opinberlega, segir að besta niðurstaðan hafi orðið ofan á miðað við aðstæður í þjóðfélaginu. Hann segist ekki vera vonsvikinn þrátt fyrir að enginn úr stjórnarandstöðunni hafi stutt málið í endanlegum búningi.. Hann hafi sjálfur verið ósáttur við samninginn en niðurstaðan sé sú besta í stöðunni miðað við pólitískar aðstæður.

Ögmundur sagði í ræðustól í þinginu að það hefði hvorki verið vilji hjá stjórn eða stjórnarandstöðu til að fella málið á Alþingi. Hann segist með þessu ekki hafa verið að brigsla stjórnarandstöðunni um að koma ekki hreint fram heldur einfaldlega benda á að gerð fyrirvaranna hefði gerbreytt ríkisábyrgðinni og  leitt í ljós hina breiðu pólitísku samstöðu. Flokkarnir hafi allir stutt framgang málsins og það standi upp úr.

 Hann segist ennfremur ánægður með að það sé nú komið inn í frumvarpið ákvæði þess efnis að Íslendingar séu staðráðnir í því að ná aftur þeim fjármunum sem skotið var undan. Það sé góð skilaboð út í heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka