Hafa samband við Breta og Hollendinga

Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Ómar

Næsta skref er að hafa samband við Breta og Hollendinga. Ég geri frekar ráð fyrir að það taki einhvern tíma,“sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við mbl.is að lokinni 3. umræðu um Icesave-friumvarpið. Lokaatkvæðagreiðsla um frumvarpið stendur nú yfir. Hún útilokar ekki að viðræður fari fram á milli ráðherra landanna.

„Fyrst í stað verður það örugglega  eins og verið hefur hingað til að embættismenn hafa útskýrt þetta fyrir Bretum og Hollendingum. Nú þegar heildarmyndin liggur fyrir þá býst ég við að það verði fyrst í stað gert með þeim hætti en auðvitað munu stjórnvöld einnig hafa samband við bresk og hollensk stjórnvöld til að ræða þetta mál og útskýra okkar sjónarmið,“ sagði Jóhanna.

Hún segir að vel komi til greina að viðræður fari fram á milli ráðherra í kjölfarið þegar búið sé að fara yfir málið með sérfræðingum. „Ég mun fljótlega setja mig í samband við stjórnvöld í þessum löndum,“ segir hún.  

„Ég tel að þessir fyrirvarar séu allir með þeim hætti að þeir séu sanngjarnir og ætti að vera hægt að sýna fram á að það eru bæði sanngirnisrök í málinu og að þeir eiga að geta sýnt okkur skilning og sanngirni og fallist á þessi sjónarmið. Við erum fyrst og fremst að gera hér lagalega umgjörð og forsendur og útskýringar Alþingis fyrir þessari ríkisábyrgð. Við förum fram á við Hollendinga og Breta að þeir sýni okkur þann skilning að fallast á þessa umgjörnj, sem snýr fyrst og fremst að fullveldi landsins og efnahag þjóðarinnar til framtíðar. Það er ekki síður til hagsbóta fyrir Hollendinga og Breta en fyrir okkur að skuldaþol þjóð'arinnar og skuldabyrði verði með þeim hætti að við getum staðið undir þessum skuldbindingum,“ segir Jóhanna.

Hún segist fagna því ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður með þeim hætti að breiður meirihluti náist í málinu. „Það er mikill styrkur í því að geta sýnt breiða samstöðu við okkar viðsemjendur í svo erfiðu máli.“

Aðspurð segir Jóhanna ómögulegt um það að segja hversu langan tíma Bretar og Hollendingar telji sig þurfa til að fara yfir málið. Skilaboðin frá Alþingi séu skýr. Þessir fyrirvarar og umgjörð eru órjúfanlegur hluti af þessum samningi þannig að nú eru það skyldur okkar stjórnvalda að fylgja þessari niðurstöðu Alþingis fast eftir. Auðvitað vita Hollendingar og Bretar að þetta hefur verið mjög erfitt mál fyrir okkur Íslendinga, þetta hefur reynt á þolrifin. Það hefur reynt á þing og þjóð og þetta er erfiðasta mál sem við Íslendingar höfum farið í gegnum allt frá lýðveldisstofnun. Þeir hljóta því að skilja okkar aðstöðu og við það bind ég vonir núna í framhaldinu,“ segir Jóhanna.

stjórnvölæd

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert