Skora á forsetann að synja staðfestingu Icesave

Ábyrgðarmenn vefsíðunnar kjosa.is ætla að óska eftir fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands í kjölfar samþykktar Alþingis á frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna.

Hátt á fjórða þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til forsetans þess efnis að synja staðfestingu laga um ríkisábyrgð og gefa almenningi kost á að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á fundinum með forsetanum ætla forsvarsmenn kjosa.is að ræða hvar og hvenær afhending áskorunarinnar geti farið fram.

Í yfirlýsingu hópsins segir að samkomulag meiri hluta alþingismanna í icesave-deilunni kunni að vera góðra gjalda vert. Hins vegar verði ekki litið framhjá því að úti í samfélaginu ríki enn mikið ósætti og djúpstæður ágreiningur um málið. Nauðsynlegt sé að gera almenningi mögulegt að jafna þann ágreining og ná sátt um málið með lýðræðislegum hætti. Leiðin að því marki sé vörðuð í stjórnarskrá Íslands.

kjosa.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka