Íslandsbanki býður einstaklingum í viðskiptum við bankann að greiða niður yfirdráttarlán með mánaðarlegum greiðslum á allt að tveimur árum með hagstæðari kjörum en hafa boðist. Segir bankinn, að þessi lausn sé sniðin að þeim viðskiptavinum sem eru með yfirdráttarlán undir 1 milljón króna.
Viðskiptavinir Íslandsbanka geta lækkað yfirdráttinn með því að undirrita samkomulag við sitt viðskiptaútibú. Með því móti lækka vextir á yfirdrættinum niður í 11,75%, m.v. núgildandi vaxtakjör. Með þessu móti gefst viðskiptavinum færi á að lækka vaxtakostnað sinn verulega og um leið að losa sig við yfirdráttinn á allt að tveimur árum.
Segir bankinn, að til dæmis geti viðskiptavinur í vildarþjónustu Íslandsbanka, sem er með 300.000 kr. í yfirdrátt og greiði hann niður um 12.500 krónur á mánuði í 2 ár, lækkað hjá sér vaxtakostnað um allt að 53.000 krónur á þessum tveimur árum.