Um 150 manns mættu í Lystigarðinn á Akureyri í gærkvöld til vera við setningu Akureyrarvöku, gera ráð fyrir að slæmt veður hafi dregið nokkuð úr mætingu. Veittar voru viðurkenningar fyrir fjóra fallegustu garðana við einbýlishús og blokkir í bænum.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu, setti Akureyrarvöku og síðan veitti Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri viðurkenningar fyrir fallegustu garðana. Einnig var veitt viðurkenning fyrir fallegasta og best hirta matjurtagarðinn.
Þess er skemmst að minnast að Akureyringar tóku afar vel við sér þegar auglýstir voru í vor nytjagarðar fyrir þá sem vildu rækta sitt grænmeti sjálfir. Sigrún H Guðjónsdóttir þótti hafa fallegasta matjurtagarðinn.
Að síðustu var starfsfólki fyrirtækisins Ásprent-Stíls veitt viðurkenning fyrir verkefnið Brostu með hjartanum sem færði Akureyringum og landsmönnum öllum styrk og bros á þeim erfiða tíma sem dunið hefur yfir landann síðustu misserin. Þess má geta að í tilefni af Akureyrarvöku var kveikt á hjartanu í Vaðlaheiðinni og enn eru það starfmenn fyrirtækisins Rafeyrar sem þar eru að verki.
Að loknum viðurkenningum nutu gestir garðsins tónlistar, upplesturs og skoðuðu sýninguna List í garðinum sem er samsýning níu karla og kvenna af Norðausturlandi.