„Eins og útbrunnin áramótabrenna“

mbl.is/Gunnar Kristjánsson

„Þetta er alveg hryllilegt. Þetta er eins og að horfa á útbrunna áramótabrennu, gömlu húsin eru brunnin til ösku. Fljótt á litið sýnist mér nýrra húsið það mikið skemmt að viðgerð borgi sig ekki. Það er sárt að horfa á þetta, nokkurra ára vinna farin,“ sagði Lárus Guðmundsson, eigandi húsanna sem brunnu í Grundarfirði í gærkvöld og nótt, eftir að hann hafði skoðað verksummerki á staðnum.

Lárus sagði þó mestu máli skipta að engin slys urðu á mönnum. Hann sagðist ekki geta slegið á fjárhagslegt tjón sitt vegna brunans. Það hlypi á milljónatugum en það væri seinni tíma mál að finna út úr því.

„Ég hef miklu meiri áhyggjur af sjómönnunum tveimur sem áttu veiðarfæri í gömlu húsunum og misstu allt sitt. Þeir voru búnir að fella netin og klárir í að nota þau eftir helgi þegar nýtt kvótaár hefst. Nú komast þeir ekki af stað. Það er agalegt,“ sagði Lárus.

Enn er óvíst um eldsupptök. Menn voru við vinnu í húsinu síðdegis í gær en telja sig hafa slökkt á öllu. Rafmagn var á húsinu og því er ekki hægt að útiloka að kviknað hafi í út frá rafmagni. Von er á rannsóknarmönnum frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavíkur Vestur til Grundarfjarðar eftir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert