Fjármagnstekjur skattlagðar eins og laun

Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, varaformaður og formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, varaformaður og formaður VG.

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hvetur þingflokk VG til að hafa í huga við gerð fjárlaga fyrir næsta ár, að auknar álögur verði fyrst og fremst lagðar á þann hluta samfélagsins sem standi undir frekari álögum.

Nefnir flokksráðið stighækkandi hátekjuskatt, þrepaskiptan stóreignar- og erfðaskatt og skattlagningu fjármagnstekna til jafns við launatekjur. Þá verði höfuðáhersla lögð á að verja grunnstoðir velferðarkerfisins og að niðurskurður auki ekki atvinnuleysi.

Þetta kemur fram í ályktun, sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi VG á Hvolsvelli í dag. Þar er einnig hvatt til þess að kynjaðri hagstjórn verði beitt svo kvennastörfum í velferðarkerfinu verði ekki fórnað til að skapa karlastörf með verklegum framkvæmdum.

Þá vill flokksráðið að sala á ríkisfyrirtækjum verði ekki notuð til að hylja halla á ríkissjóði eins og gert var í tíð fyrri ríkisstjórna og að fyrir liggi og kynnt almenningi hvaða fyrirmæli eða rammi liggur fyrir frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hvaða afstöðu þingflokkurinn hefur til þeirra skilyrða.

Loks hvetur flokksráðið til að tekið verði tillit til byggðarlaga sem á góðæristímanum bjuggu við neikvæðan hagvöxt og mikla fólksfækkun við óhjákvæmilegan niðurskurð ríkisútgjalda.

Ályktanir flokksráðsfundar VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka