Flokksráðið Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs samþykkti sérstaka ályktun um eignarhald á HS Orku og beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda fyrirtækinu í samfélagslegri eigu.
„Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform," segir í ályktuninni.
Þar segir einnig, flokksráð VG leggist eindregið gegn því að lausafjárvandi samfélagsins verði leystur með sölu eða langtímaframsali á auðlindum og orkufyrirtækjum. Ljóst sé að ekki sé seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.