Eftir Ómar Friðriksson -
Óvíst er hvenær stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) tekur fyrir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands, svo afgreiða megi næsta hluta lánsins frá sjóðnum. Alþingi samþykkti í gær ríkisábyrgðina vegna Icesave með 34 atkvæðum gegn 14. Fjórtán þingmenn greiddu ekki atkvæði. Bresk og hollensk stjórnvöld hafa enn sem komið er sýnt lítil viðbrögð við afgreiðslu þingsins. Lán Norðurlandanna til Íslands verða ekki afgreidd fyrr en ákvörðun AGS liggur fyrir.
Ríkisstjórnin bindur vonir við að afgreiðsla Icesave-frumvarpsins á Alþingi í gær losi stífluna sem staðið hefur í vegi erlendra lánveitinga og enduruppbyggingar og greiði fyrir samskiptum við erlendar lánastofnanir og kröfuhafa. Forsætisráðherra sagði við Morgunblaðið í gær að næsta skref væri að hafa samband við Breta og Hollendinga. Hún gerir þó frekar ráð fyrir að það taki einhvern tíma. Fjármálaráðherra gerir sér vonir um að AGS taki málefni Íslands fyrir á næstu vikum.
„Aðalútborgunarskilyrði norrænu lánanna er samþykkt endurskoðunar framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á framvindu íslensku efnahagsáætlunarinnar,“ segir Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar Íslands um gjaldeyrislán. Þetta skilyrði er bundið í lánasamningana við Norðurlöndin.