Fréttaskýring: Óttast að hömlur rýri verðgildi bújarða

mbl.is/G. Rúnar

Þegar Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynnti um stofnun vinnuhópsins kom fram í tilkynningu ráðuneytisins að tiltekið væri í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún mundi standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.

„Jarða- og ábúðarmál eru nátengd yfirlýstum markmiðum um fæðuöryggi þjóðarinnar. Meginstefnan hlýtur að felast í að halda utan um og vernda núverandi og framtíðar landnæði sem til matvælaframleiðslu er fallið og skapa jafnframt sem best skilyrði í hinum dreifðu byggðum,“ sagði í tilkynningunni.

Þar eru talin upp nokkur atriði, sem augljóslega munu takmarka rétt landeigenda, rati þau inn í landslög. Í lið 2. segir þannig til dæmis: „Treysta þarf ábúð og hinar dreifðu byggðir landsins.“ Í lið 4. er spurt: „Er mögulegt að setja hömlur á jarðasöfnun á hendi fárra einstaklinga?“ Og í lið 5. er áfram spurt: „Er hægt að setja samfélagslegar kvaðir um nýtingu jarða og er hægt að bregðast við ef brotnar eru forsendur fyrir nýtingu sem telja verður að varði fæðuöryggi þjóðarinnar?“

Vilja að lögin verði óbreytt

„Landssamtök landeigenda sjá enga ástæðu til að breyta gildandi jarða- og ábúðarlögum og vilja að viðskiptafrelsi ríki áfram á markaði fyrir bújarðir líkt og með fasteignir yfirleitt. Samtökin vara eindregið við að hömlur verði settar á viðskipti með bújarðir sem rýrt gætu verðgildi þeirra. Slíkt yrði afturhvarf til fortíðar,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

Örn Bergsson á Hofi í Öræfum er formaður Landsamtaka landeigenda. Hann segir það alveg ljóst að verð á jörðum mun lækka verði skorður settar á viðskipti með þær.

„Ég tel að þessi mál sé í góðum farvegi eins og jarðalögin eru í dag. Þetta er tiltölulega ný löggjöf, þar sem jarðalögin voru færð til nútímans. Ég sé engan tilgang í því að skerða viðskipti með þennan flokk fasteigna sérstaklega,“ segir Örn. Hann segir að ef hömlur verði settar á viðskipti með jarðir sé sú hætta fyrir hendi að lánastofnanir kippi að sér höndum. Þær hafi alltaf byggt á verðmati jarða á frjálsum markaði. „Ef settar verða hömlur óttast ég að það komi til veðkalla hjá lánastofnunum, við höfum nóg af slíku í dag,“ segir Örn.

Hann segir að nóg framboð sé af jörðum og fólk þurfi að geta losað um eignir ef á þurfi að halda. „Menn hafa verið að tala um að setja ábúðarskyldu á jarðir. Það yrði hrein og bein eignaupptaka og margar jarðir yrðu óseljanlegar,“ segir Örn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert