Fjallað er í hollenska blaðinu NRC Handelsblad í dag um afgreiðslu Alþingis á fyrirvörum vegna ríkisábyrgðar á greiðslum til Hollendinga og Breta vegna Icesave. Vitnað er í þingmann sem segir að hefja verði samningaviðræður á ný.
„Elly Blanksma, þingmaður fyrir CDA (Kristilega demókrata), álítur að skilyrðin séu önnur en þau sem ríkisstjórnin samþykkti í júní," segir í blaðinu. Þess vegna verði að hefja nýjar samningaviðræður, að sögn Blanksma.
Rakið er að í fyrirvörunum sé kveðið á um að greiðslurnar muni verða tengdar hagvexti á Íslandi sem hafi orðið mjög illa úti í fjármálakreppunni og orðið nær gjaldþrota. Handelsblad segir að Wouter Bos fjármálaráðherra hafi ekki viljað tjá sig um fyrirvarana sérstaklega en lýst ánægju með að Alþingi væri búið að samþykkja málið. Það væri skref fram á við og „hollenskir skattgreiðendur fengju peningana sína aftur".