„Opnum eins fljótt og hægt er“

Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvídeós.
Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvídeós. mvl.is/Árni Sæberg

„Það er allt myndasafnið farið nánast. En við byrjum strax í fyrramálið að hreinsa til og opnum eins fljótt og mögulegt er,“ segir Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvídeós sem brann í nótt. Lögreglan rannsakar málið sem íkveikju en upptökur úr öryggismyndavélum við Laugarásvídeó benda ótvírætt til þess að kveikt hafi verið í.

Laugarásvídeó stendur á horni Dalbrautar og Sæbrautar og er ein rótgrónasta vídeóleiga landsins, var opnuð fyrir 23 árum.

Slökkvilið fékk tilkynningu um eldinn um klukkan hálffjögur í nótt. Þá voru rúmar 20 mínútur liðnar frá því eigandinn yfirgaf húsnæðið. Þegar slökkvilið kom að skíðlogaði í húsinu.

Fimm eftirlitsmyndavélar eru í Laugarásvídeói og var upptökubúnaður og annar tölvubúnaður í eldtraustu herbergi. Við skoðun á upptökum sést hvar maður kemur akandi að leigunni, gengur að útihurð og kastar einhverju inn um skilalúguna.

„Þetta er að líkindum karlmaður en hann hendir tusku eða einhverju slíku inn og beygir sig síðan niður og hellir einhverju inn um lúguna. Í kjölfarið blossar upp mikill eldur. Það sést glöggt á upptökunum hvernig allt fuðrar upp. Það er svakalegt að skoða þetta,“ segir Gunnar.

Hann segir að lögregla vinni nú að því að skýra myndirnar af þeim sem lagði eld að leigunni í nótt og er bjartsýnn á að takist að hafa hendur í hári brennuvargsins. Gunnar segist ekki geta ímyndað sér hver þarna var að verki.

„Það er skelfilegt að maðurinn skyldi leggja eld að fjölbýlishúsi þar sem fólk var í fasta svefni. Ég á mér ekki óvildarmenn svo ég viti. Þetta er óskiljanlegt,“ segir Gunnar.

Svo til allt brann í nótt sem brunnið gat og er tjónið gríðarlegt.

„Ætli virði hússins sé ekki um 40 milljónir. Allir innanstokksmunir leigunnar eru gjörónýtir og þarna voru 39.762 myndir. Ef jafnaðarverð er 4.000 krónur á mynd þá gerir það tæpar 160 milljónir. Tjónið lætur því nærri að vera 200 milljónir króna,“ segir Gunnar Jósefsson.

Hann segir þó að ekki verði hægt að bæta allt sem brann í nótt. Margar sjaldgæfar myndir hafi verið á leigunni, sem aldrei verði bættar. „Tryggingamál hefðu vissulega mátt vera í betra lagi sem er minn klaufasakapur.“ 

„Nú er bara að bretta upp ermar. Við byrjum á að hreinsa út á morgun. Ég ætla mér að byggja upp eins hratt og mögulegt er og opna eins fljótt og auðið er. Ef allt gengur eftir getum við opnað eftir tvo til þrjá mánuði,“ segir Gunnar Jósefsson, eigandi Laugarásvídeós.

Íbúðir eru á efri hæðum hússins þar sem búa sjö manns. Þrennt þurfti að gista annars staðar í nótt þar sem íbúðin þeirra fylltist af reyk.

Viðkvæmur tölvubúnaður eyðilagðist í eldinum.
Viðkvæmur tölvubúnaður eyðilagðist í eldinum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert