Lögregla var kölluð út að verslun 10-11 við Langarima í Grafarvogi á ellefta tímanum í kvöld vegna sprengjuhótunar. Mun óþekktur maður hafa hringt í starfsfólk verslunarinnar og sagt því að sprengja væri fyrir utan.
Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að fyrir utan verslunina voru tvær töskur og var önnur þeirra merkt „sprengja.“ Töluverður fjöldi unglinga var við verslunina á þessum tíma.
Leiddi rannsókn lögreglu í ljós að um gabb var að ræða. Skammt er síðan rýma þurfti Borgarholtsskóla í Grafarvogi eftir að sprengjuhótun var hringd inn. Var maður handtekinn vegna þess gabbs og játaði við yfirheyrslur.