Meirihluti í HS orku verði frá hinu opinbera

HS orka verður í meirihlutaeigu opinberra aðila og í tæplega helmingseigu Magma Energy ef hugmyndir sem nú eru uppi á borðinu hjá fjármálaráðuneytinu ganga eftir, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Fulltrúar fjármála- og iðnaðarráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Magma Energy hafa átt í viðræðum um framtíðarskipulag HS orku frá því snemma í síðustu viku og er ofangreind niðurstaða afrakstur þeirra viðræðna. Frestur OR til að taka tilboði Magma í 32,32% hlut fyrirtækisins í HS orku rennur út í dag.

Hugmyndin er sú að Magma kaupi þá hluti sem fyrirtækið hefur þegar sóst eftir að kaupa og verði eftir það eigandi tæplega helmings eignarhlutar í HS orku.

Síðan mun íslenska ríkið, lífeyrissjóðir og sveitarfélög, m.a. Grindavík, reyna að eignast um 55% hlut í HS orku sem nú er í eigu Geysis Green Energy (GGE), en aðalfundur þess fyrirtækis er í dag. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Landsbankinn, Íslandsbanki og lífeyrissjóðir reyna að fá allt að fjóra menn skipaða í nýja fimm manna stjórn GGE á þeim fundi og ná þar með meirihluta, en fjárhagsstaða fyrirtækisins er veik og framtíð þess í höndum helstu lánardrottna þess, sem eru ofangreindir bankar. Stjórnarmenn Landsbankans verða að nafninu til stjórnarmenn Atorku, sem í dag er stærsti eigandi GGE, en verða skipaðir af bankanum.

Til vara að kaupa hluti Magma

Gangi þessi leið ekki eftir herma heimildir Morgunblaðsins að stjórnvöld vilji að tryggt verði í samningum að þau geti gengið inn í kaup á 20 prósent af þeim 32,32 prósentum sem Magma hyggst kaupa af OR. Hugmyndir um að íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og OR myndu kaupa allan þann hlut sem Magma ætlar sér í HS orku hafa verið lagðar til hliðar, en þær voru ræddar af töluverðri alvöru fyrr í mánuðinum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert