Flúði frá lögreglu út á veg

Ökumaður, sem lögreglan á Selfossi stöðvaði á Biskupstungnabraut á laugardag grunaðan um ölvun við akstur, reyndi að komast undan lögreglumönnum með því að hlaupa út úr bílnum og eftir veginum.

Þurfti lögregla að beita manninn valdi til að yfirbuga hann. Mikil og hröð umferð var um vettvang og því umtalsverð hætta sem skapaðist af athæfinu. Hann gisti fangageymslu en fór af stöð daginn eftir, eftir að honum var runnin áfengisvíman.

Tveir aðrir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Annar þeirra ók bifreið sinni á 117 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann reyndist bandarískur ríkisborgari og gekk hann frá máli sínu með sviptingu og greiðslu sektar strax daginn eftir, áður en hann fór af landi brott. 

Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á Selfossi  um liðna helgi. Önnur árásin var gerð í Hvíta húsinu á Selfossi þar sem stóð yfir dansleikur en þar var maður sleginn í andlitið. Í hinu tilfellinu mun maður hafa verið skallaður í andlitið svo tönn brotnaði. Sá var að halda upp á Blómstrandi daga í Hveragerði en þar var mikill fjöldi fólks saman kominn. Hátíðin fór almennt vel fram en töluverð ölvun var þó þegar kom fram á kvöldið, að sögn lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert