Íslensk stjórnvöld munu ekki gera tilboð í hlut Orkuveitunnar í HS Orku. Aðeins eitt tilboð mun því liggja fyrir í hlutinn á stjórnarfundi Orkuveitunnar sem hefst klukkan eitt. Það er frá Magma Energy. Fréttastofa RÚV greindi frá.
Stíf fundarhöld voru í fjármálaráðuneytinu í morgun vegna mögulegra kaupa Magma á hlut Orkuveitunnar í HS Orku. Ekki tókst að tryggja að innlendir aðilar biðu í hlutinn gegn Magma.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagði í samtali við RÚV að hann hefði kosið lengri frest til að vinna í málinu en Orkuveitan ekki viljað fallast á það. Málið verður tekið fyrir á stjórnarfundi Orkuveitunnar sem hefst klukkan eitt.