Saka Ólaf F. um fjárdrátt

Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi.
Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fram­kvæmda­stjórn og Fjár­málaráð Frjáls­lynda flokks­ins íhuga að kæra Ólaf F. Magnús­son, borg­ar­full­trúa til efna­hags­brota­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna meints fjár­drátt­ar. Ólaf­ur seg­ir í sam­tali við mbl.is að ásak­an­ir flokks­ins séu fá­rán­leg­ar og ekki svara­verðar. Um sé að ræða þriggja millj­óna króna styrk Reykja­vík­ur­borg­ar sem ætlað sé að standa straum af rekstri borg­ar­stjórn­ar­flokks­ins en ekki rekstri flokks­ins á landsvísu.

í bréfi sem Guðjón Arn­ar Kristjáns­son formaður Frjáls­lynda flokks­ins og Helgi Helga­son formaður fjár­málaráðs flokks­ins sendu borg­ar­stjóra seg­ir að fram­kvæmda­stjórn og fjár­málaráð flokks­ins hafi um nokk­urn tíma beðið þess að borg­ar­stjórn sæi til þess að leiðrétt yrði sú óeðli­lega fjár­taka sem fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri Ólaf­ur F. Magnús­son viðhafði á valda­tíma sín­um sem borg­ar­stjóri í upp­hafi árs 2008 þegar hann án sam­ráðs eða samþykk­is frá Frjáls­lynda flokkn­um lét skrif­stofu borg­ar­inn­ar greiða inn á sérreikn­ing á sinni kenni­tölu fjár­styrk fyr­ir árið 2008.

Ólaf­ur F. seg­ir að það rangt að styrk­ur­inn hafi verið fgreidd­ur inn á reikn­ing á hans kenni­tölu. Styrk­ur­inn hafi hins veg­ar greidd­ur inn á reikn­ing borg­ara­mála­fé­lags F-list­ans.

í bréf­inu til borg­ar­stjóra seg­ir enn­frem­ur að þessi fjár­styrk­ur hafi ávallt verið greidd­ur til Frjáls­lynda flokks­ins, allt frá ár­inu 2002, eins og annarra stjórn­mála­flokka sem boðið hafa fram til borg­ar­stjórn­ar. Allt kjör­tíma­bilið 2002 til 2006 hafi fjár­styrk­ur­inn til stjórn­mála­flokka verið greidd­ur til Frjáls­lynda flokks­ins.

Um er að ræða þrjár millj­ón­ir króna vegna árs­ins 2008. Formaður Frjáls­lynda flokks­ins seg­ir að margoft hafi verið rætt við Ólaf F. Magnús­son en hann ekki feng­ist til þess að leiðrétta "óheim­ila fjár­töku" sína, eins og það er orðað.

„Þess er nú farið á leit við borg­ar­stjórn að þessi ólög­mæta sjálf­taka Ólafs F. Magnús­son­ar verði stöðvuð og borg­ar­stjórn sjái til þess að fjár­styrk­ur borg­ar­inn­ar til stjórn­mála­flokka fyr­ir árið 2009 ber­ist til Frjáls­lynda flokks­ins hið fyrsta. Því ber ekki að leyna að það skipt­ir Frjáls­lynda flokk­inn miklu að fá þessa fjár­muni nú þar sem er enn óupp­gert við fyr­ir­tæki í borg­inni sem selt hafa Frjáls­lynda flokkn­um þjón­ustu sína,“ seg­ir í bréfi Frjáls­lynda flokks­ins til borg­ar­stjóra.

Ólaf­ur F. Magnús­son, borg­ar­full­trúi sagði skilið við Frjáls­lynda flokkn­um í vor og hef­ur starfað sem óháður borg­ar­full­trúi síðan þá. Hann hló við þegar ásak­an­irn­ar voru born­ar und­ir hann og sagði þær fá­rán­leg­ar.

„Ég vissi ekki að þeir ætluðu að fara niður á þetta plan. Þetta er varla svara­vert. Ég veit ekki hvað vak­ir fyr­ir þess­um mönn­um að ráðast að mann­orði mínu með þess­um hætti. Ég fékk á sín­um tíma lög­fræðiálit þess efn­is að fram­lög borg­ar­inn­ar til­heyrðu borg­ar­stjórn­ar­flokki Frjáls­lyndra og óháðra en ekki flokkn­um. Ég mun biðja þann lög­mann að skoða málið fyr­ir mig. Ég held að sá bjúg­verpill Guðjóns Arn­ars og fé­laga hans Magnús­ar Reyn­is Guðmunds­son­ar, fram­kvæmda­stjóra, sem nú hef­ur verið send­ur á loft, hafni að lok­um í höfðum þeirra sjálfra,“ sagði Ólaf­ur F. Magnús­son, borg­ar­full­trúi óháðra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert