Saka Ólaf F. um fjárdrátt

Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi.
Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdastjórn og Fjármálaráð Frjálslynda flokksins íhuga að kæra Ólaf F. Magnússon, borgarfulltrúa til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna meints fjárdráttar. Ólafur segir í samtali við mbl.is að ásakanir flokksins séu fáránlegar og ekki svaraverðar. Um sé að ræða þriggja milljóna króna styrk Reykjavíkurborgar sem ætlað sé að standa straum af rekstri borgarstjórnarflokksins en ekki rekstri flokksins á landsvísu.

í bréfi sem Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins og Helgi Helgason formaður fjármálaráðs flokksins sendu borgarstjóra segir að framkvæmdastjórn og fjármálaráð flokksins hafi um nokkurn tíma beðið þess að borgarstjórn sæi til þess að leiðrétt yrði sú óeðlilega fjártaka sem fyrrverandi borgarstjóri Ólafur F. Magnússon viðhafði á valdatíma sínum sem borgarstjóri í upphafi árs 2008 þegar hann án samráðs eða samþykkis frá Frjálslynda flokknum lét skrifstofu borgarinnar greiða inn á sérreikning á sinni kennitölu fjárstyrk fyrir árið 2008.

Ólafur F. segir að það rangt að styrkurinn hafi verið fgreiddur inn á reikning á hans kennitölu. Styrkurinn hafi hins vegar greiddur inn á reikning borgaramálafélags F-listans.

í bréfinu til borgarstjóra segir ennfremur að þessi fjárstyrkur hafi ávallt verið greiddur til Frjálslynda flokksins, allt frá árinu 2002, eins og annarra stjórnmálaflokka sem boðið hafa fram til borgarstjórnar. Allt kjörtímabilið 2002 til 2006 hafi fjárstyrkurinn til stjórnmálaflokka verið greiddur til Frjálslynda flokksins.

Um er að ræða þrjár milljónir króna vegna ársins 2008. Formaður Frjálslynda flokksins segir að margoft hafi verið rætt við Ólaf F. Magnússon en hann ekki fengist til þess að leiðrétta "óheimila fjártöku" sína, eins og það er orðað.

„Þess er nú farið á leit við borgarstjórn að þessi ólögmæta sjálftaka Ólafs F. Magnússonar verði stöðvuð og borgarstjórn sjái til þess að fjárstyrkur borgarinnar til stjórnmálaflokka fyrir árið 2009 berist til Frjálslynda flokksins hið fyrsta. Því ber ekki að leyna að það skiptir Frjálslynda flokkinn miklu að fá þessa fjármuni nú þar sem er enn óuppgert við fyrirtæki í borginni sem selt hafa Frjálslynda flokknum þjónustu sína,“ segir í bréfi Frjálslynda flokksins til borgarstjóra.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi sagði skilið við Frjálslynda flokknum í vor og hefur starfað sem óháður borgarfulltrúi síðan þá. Hann hló við þegar ásakanirnar voru bornar undir hann og sagði þær fáránlegar.

„Ég vissi ekki að þeir ætluðu að fara niður á þetta plan. Þetta er varla svaravert. Ég veit ekki hvað vakir fyrir þessum mönnum að ráðast að mannorði mínu með þessum hætti. Ég fékk á sínum tíma lögfræðiálit þess efnis að framlög borgarinnar tilheyrðu borgarstjórnarflokki Frjálslyndra og óháðra en ekki flokknum. Ég mun biðja þann lögmann að skoða málið fyrir mig. Ég held að sá bjúgverpill Guðjóns Arnars og félaga hans Magnúsar Reynis Guðmundssonar, framkvæmdastjóra, sem nú hefur verið sendur á loft, hafni að lokum í höfðum þeirra sjálfra,“ sagði Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi óháðra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka