Segja Íslendinga beitta fjárkúgun

Hollensk og bresk stjórnvöld eru í aðsendri grein í hollenska blaðinu de Volkskrant gagnrýnd fyrir harkalegar aðgerðir gegn Íslendingum og fleiri skuldugum Evrópuríkjum. Höfundar greinarinnar eru Gunnar Tómasson, hagfræðingur, hollenskur háskólakennari og bandarískur prófessor.

Auk Gunnars skrifa Dirk Bezemer, dósent við háskólann í Groningen, og Michael Hudson, prófessor við Missouriháskólaa, undir greinina. Þar segir, að fjármálakreppuna á Íslandi megi að hluta rekja til íslensku bankanna og erlendra kröfuhafa þeirra en íslenska þjóðin þurfi nú að borga brúsann.  

Þá segja greinarhöfundar, að Evrópusambandsríki séu að gera sömu mistökin og bandamenn gerðu eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar þeir neyddu þýsk stjórnvöld til að greiða háar stríðsskaðabætur. Það hafi leitt til hruns þýska hagkerfisins og valdið fátækt og þjáningum í landinu. 
 
„Vandinn er, að lánardrottnar á borð við Bretland og Holland hafa ákveðið að verða einskonar fulltrúar eigin banka og borgara. Afleiðingin er að þeir reyna að nota alþjóðlegar stofnanir til að beita sér í þeirra þágu með því að hóta að Ísland fái ekki stuðning frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða aðild að Evrópusambandinu.

„Það er merkilegt að opinber umræða í Hollandi... virðist telja fjárkúgun af þessu tagi fullkomlega réttlætanlega. Hún byggir á því, að skuld sé skuld og þeir sem fái lánað verði að borga. Ríkisstjórn Íslands og íslenska þjóðin verða að herða beltið," segir í greininni.

Þá kemur fram að erlendar skuldir Íslands séu nú um 240% af vergri landsframleiðslu. „Engu landi hefur nokkurn tíma tekist að greiða slíkar skuldir," segja fræðimennirnir og bæta við að íslensk stjórnvöld verði augljóslega að taka meiri lán. „Þetta er öngstræti," segja þeir.

Greinin í de Volkskrant

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert