Samkvæmt samtölum við forsvarsmenn bílafjármögnunarfyrirtækja hafa engar ákvarðanir verið teknar um að lækka höfuðstól lánanna, líkt og bankarnir hafa sumir hverjir verið að skoða í tengslum við erlend og verðtryggð íbúðalán. Hins vegar er verið að skoða hvort grípa eigi til annarra úrræða en frystingar lána og greiðsludreifingar. Aðallega er þó beðið eftir því að hvort stjórnvöld ákveði einhverjar almennar aðgerðir, en nefnd er að fjalla um tillögur að nýjum úrræðum fyrir fólk í greiðsluvanda.
Eftirstöðvar bílalána eru í mörgum tilvikum komnar langt upp fyrir verðmæti bílanna. Aðeins tæpur helmingur þeirra sem eru með bílalán hafa þó nýtt sér úrræði fjármálafyrirtækjanna, þar sem lánin eru fryst í allt að átta mánuði, með því að greiða hluta af afborgunum en greiða yfirleitt vextina áfram. Lánstíminn hefur þá lengst eftir því hversu mikil eða löng frystingin hefur verið. Minna hefur borið á vörslusviptingu bíla í vanskilum en fyrst eftir bankahrunið, þegar einkum stórir bílar voru teknir til baka.
Már Másson, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir bílalánin vera til skoðunar líkt og íbúðalánin. Verið sé að skoða ýmsar leiðir til að finna varanlega lausn á þessum málum.
„Við höfum orðið vör við einhverja aukningu á vanskilum en þó ekki í samræmi við það sem ætla mætti. Það hefur til dæmis ekki verið mikil aukning í töku fullnustueigna hjá einstaklingum síðustu vikur,“ segir Már og telur að þau úrræði sem Íslandsbanki fjármögnun býður sínum viðskiptavinum hafi skilað sér í minni vanskilum. Komið hafi verið til móts við lántakendur með því t.d. að lækka greiðslur í 50% hlutfall í átta mánuði og lengja lán um fjóra mánuði.
Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Lýsingar, tekur ekki afstöðu til þeirra leiða sem bankarnir hafa skoðað í tengslum við íbúðalánin. „Lýsing er bundin reglum Seðlabankans og ber meðal annars samkvæmt þeim skylda til að halda gjaldeyrisjafnvægi. Það eitt og sér takmarkar okkur í að grípa til þeirra úrræða sem eru til umfjöllunar,“ segir Halldór.
Hann segir færri einstaklinga nýta sér frystingu nú en fyrst eftir bankahrunið. Nú séu um 1.600 einstaklingar af um 16 þúsund með slíka samninga, en flestir voru þeir á bilinu fjögur til fimm þúsund. Halldór segir vanskilahlutfallið ekki hafa hækkað að neinu ráði. „Fjöldi einstaklinga er í erfiðleikum, og við drögum ekki dul á það, en aðalvandinn er greiðsluerfiðleikar fyrirtækja. Við verðum að einbeita okkur að því að koma atvinnulífinu á réttan kjöl,“ segir Halldór hjá Lýsingu.