Stefna að byggingu einkaspítala

Gunnar Ármannsson.
Gunnar Ármannsson.

Stefnt er að því að hefja byggingu á einkaspítala og heilsuhóteli á Íslandi þar sem gerðar verða hnjáliða- og mjaðmaskiptaaðgerðum og sjúklingarnir verða eingöngu erlendir. 

Það er íslenska fyrirtækið PrimaKer sem stendur að verkefninu í samvinnu við bandaríska fyrirtækið Shiboomi.

Fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins, að aðstandendur verkefnisins telja að það geti skilað allt að 10 þúsund ferðamönnum á ári og 10 milljörðum í gjaldeyristekjur árlega. Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaKer sagði að búist væri við að mikil eftirspurn yrði eftir mjaðmaskipta- og hnjáliðaaðgerðum innan ekki langs tíma.

Þá yrði sjúkrahúsið byggt upp á grænum gildum. Gunnar sagði, að Shiboomi sinnti sínum verkefnum með það að leiðarljósi að leysa þau með eins umhverfisvænum hætti og unnt væri.

Fram kom hjá Gunnari, að gert væri ráð fyrir að 65-75 sjúkrarúm yrðu í sjúkrahúsinu og að þar væri hægt að gera 3000-3500 aðgerðir á ári. Ef reiknað væri með að 1-2 aðstandendur kæmu með sjúklingunum mætti reikna með 10 þúsund ferðamönnum hingað í tengslum við sjúkrahúsið. 

Auk sjúkrahússins eru áform um að reisa hótel og rannsóknarmiðstöð þar sem hugsanlega gæti verið göngudeildarstarfsemi. Gunnar sagði ljóst að þetta gæti skapað mörg störf, þar á meðal störf sem ekki væru að jafnaði unnin hér á landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert