Ríflega þriðjungur eða 35% þeirra sem eru í launaðri vinnu hafa lent í því að laun eða starfshlutfall hefur verið skert frá hruni bankanna í október. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ASÍ í júní.
Flestir eða rúmlega 18% hafa lent í launalækkun, hjá 9% hefur vinnutími verið styttur og 8% hafa orðið fyrir annarskonar skerðingu. Þetta er mikil aukning frá því í desember 2008 þegar 21% launafólks hafði orðið fyrir í slíkri skerðingu.
Mun fleiri karlar en konur hafa lent í skerðingu launa og/eða starfshlutfalls og þá vekur athygli að 40% iðnaðarmanna hafa orðið fyrir því að laun hafa verið lækkuð eða vinnutími styttur. Þá hafa þeir sem eru með laun yfir 550 þúsund á mánuði frekar lent í launalækkun en þeir sem hafa lægri laun.
Þegar spurt var í júní hvort fólk teldi sig í öruggri vinnu svöruðu 77% því játandi en 23% töldu líkur á því að viðkomandi gæti orðið atvinnulaus. Sama spurning var borin upp í könnunum í október og desember 2008. Í október töldu 69% sig vera í öruggri vinnu en 31% óttuðust atvinnumissi en í desember hafði þeim fjölgað í 76% sem töldu sig í tryggri vinnu en 24% óttuðust að missa hana. Þróunin er því sú að eftir mikið óvissu ástand sl. haust eru sífellt fleiri sem telja sig í öruggu starfi, þó vissulega sé það alvarlega staða að tæplega fjórði hver launamaður telji raunhæfar líkur á að hann geti misst vinnuna. Þarna skera iðnaðarmenn sig einnig úr en 40% þeirra sem enn eru í vinnu óttast atvinnumissi.