Tilboð Magma í hlut Orkuveitu Reykjavíkur á þriðjungshlut hennar í HS Orku er óhagstætt að mati fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn OR. Fulltrúinn segir það forkastanlegt að stjórnarmönnum sé aðeins gefin klukukstund til þess að kynna sér innihald samningins og þá fjölmörgu fyrirvara sem þar eru að finna.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, greiddi atkvæði mót tillögunni. Hún segir tilboðið óhagstætt fyri OR og áhættan sem því fylgi sé óásættanleg. Hefur hún sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
„Fulltrúi Samfylkingar greiðir atkvæði gegn tillögunni. Forkastanlegt er að stjórnarmönnum sé aðeins gefin klukkustund til að kynna sér innihald samningsins og þá fjölmörgu fyrirvara sem þar er að finna. Tilboðið sem fyrir liggur er óhagstætt fyrir OR og áhættan sem því fylgir allt of mikil. 70% tilboðsins er greitt með skuldabréfi, sem greiðist upp með einni greiðslu eftir sjö ár. Þá er það mikið áhyggjuefni að móðurfélagsábyrgð Magma er ekki á skuldabréfinu heldur einungis veð í bréfum í HS- orku.
Samkvæmt umsögn Fjármálastjóra Reykjavíkurborgar um útreikning á núvirðingu sem lögð var fram íborgarráði 26. ágúst sl. samsvarar tilboðið sem fyrir liggur genginu 4,93 sé miðað við 10% ávöxtunarkröfu. Í þeim útreikningum hefur verið tekið tillit til væntrar álverðshækkunar en skuldabréfið er tengt álverði að hluta. Sé ekki gengið útfrá hækkun álverðs samsvarar tilboðið enn lægra gengi eða 4,4 mv. 10% ávöxtunarkröfu.
Miðað við þessar forsendur tapar því OR 5-6 milljörðum á viðskiptunum.
Eðlilegra hefði verið að sækja um lengri frest til samkeppni yfirvalda um fullnustu úrskurðar um hámarkseignarhluta OR í HS, til að freista þess að tryggja OR ásættanlegt endurgjald fyrir hlutinn.
Fulltrúi Samfylkingar telur að í ljósi efnahagsástands á Íslandi, mikillar óvissu og varkárni fjárfesta þegar kemur að fjárfestingum hérlendis þá væri slíkur frestur auðsóttur. Enda getur varla verið markmið samkeppnisyfirvalda að vega að almannahagsmunum og knýja opinber fyrirtæki til að selja eigur sínar á brunaútsölu.
Rétt er að taka fram að á sama fundi samþykkti meirihlutinn samning við Hafnarfjarðarbæ um kaup OR á um 15 %hlut í HS orku. Fulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá við þá bókun og segir m.a. í bókun vegna þess máls. “Ljóst er að OR mun samkvæmt samkomulaginu greiða Hafnafjarðarbæ mun meira fyrir hlutinn en Magma greiðir OR. En framreiddar greiðslur OR samsvara genginu 7,9 auk þess sem greiðslukjörin eru óhagstæð í samanburði við greiðslukjörin sem OR býðst í tilboði Magma. Einnig er harmað að stjórnarmenn hafa ekki haft nema tæpa klukkustund til að yfirfara samningin og að tillaga fulltrúa minnihlutans um frestun hafi verið felld.”