Hvatt var til þess á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í síðustu viku, að Ísland, Grænland og Færeyjar auki samstarf sitt á sviði sjávaraútvegsmála og menntamála.
Í ályktun ársfundarins segir, að löndin þrjú eigi það sameiginlegt, að ekkert sé mikilvægara efnahagslífi landanna en sjávarútvegurinn. Því beri löndunum að auka samstarf sitt á sviði sjávarútvegsmála. Meðal annars ættu sjávarútvegsráðherrar landanna að tryggja að gerð verði nákvæm úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi stjórnun veiða deilistofna.
Að frumkvæði Ólínu Þorvarðardóttur, formanns Íslandsdeildar ráðsins, ákvað ársfundurinn að þema ráðsins árið 2010 yrði fiskveiðistjórnunarkerfi vestnorrænu landanna. Fiskveiðistjórnunarkerfi landanna verða krufin auk þess sem farið verður yfir kosti þeirra og galla á sérstakri þemaráðstefnu sem haldinn verður á Sauðárkróki í byrjun júní á næsta ári.
Á ársfundinum var jafnframt eining um að tryggja beri aukið samstarf landanna á sviði menntamála. Það geti komið sér vel fyrir bæði skóla, nemendur og kennara landanna. Það var meðal annars samþykkt að hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla landanna.
Fundurinn samþykkti einnig að hvetja menntamálaráðherrana að koma á tilraunaverkefni þar sem samstarf um fjarnám á Vesturnorðurlöndum yrði formfest.
Í tilkynningu er haft eftir Ólínu, að Vestnorræna ráðið hafi ákveðið að leggja það til við ríkisstjórnirnar að þær auki samstarf sitt um bóklegt nám, iðnaðar- og starfsnám fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum. Tilgangur þess er að sögn Ólínu að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði.
Á fundinum var Josef Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, kjörinn formaður Vestnorræna ráðsins en Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður og Kári P. Højgaard, lögþingsmaður voru kjörin varaformenn.