Vilja aftur samræmd próf í 10. bekk

Tæplega tvö þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til menntamálaráðherra um að endurskoða ákvörðun um að fella niður samræmd próf í 10. bekk. Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sem vill taka upp samræmd próf í lok 10. bekkjar en þeir sem að hópnum standa, telja niðurfellingu samræmdu prófanna hafa verið mistök.

„Við viljum samræmd próf í lok 10. bekkjar,“ er yfirskrift hópsins en sl. vor var í var í fyrsta sinn ekki notast við samræmd próf þegar nemendur voru valdir inn í framhaldsskóla. Í staðinn voru vorpróf sem samin eru í grunnskólunum sjálfum notuð til að velja og hafna umsækjendum um framhaldsskólanám.

Aðstandendur hópsins segja einkunnir skólaprófa ósambærilegar og geta leitt til þess að góðir námsmenn fái ekki vist í þeim skóla sem þeir sóttu um í.

Þá segja aðstandendur hópsins að komið hafi í ljós að einkunnir nemenda hafi hækkað upp úr öllu valdi. Það sýni tilhneigingu grunnskólanna til að létta prófin í þeim tilgangi að auðvelda nemendum sínum að komast í þann skóla sem þeir óska.

„Í ljós hefur komið að niðurfelling samræmdra prófa voru mistök. Tryggja verður að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til að komast í þann framhaldsskóla sem þeim hentar og að ekki verði dregið úr námskröfum í menntakerfinu. Þau samræmdu próf sem nú eru í byrjun 10. bekkjar nýtast engum því þau má ekki nýta til þess að velja inn í framhaldsskóla,“ segir á Facebook-síðu hópsins.

Facebook-síðan

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka