Íslandsbanki, Landsbankinn og lífeyrissjóðir stefna að því að fá fjóra stjórnarmenn á aðalfundi Geysis Green Energy (GGE) sem hefst klukkan 15:00 í dag. Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Mannvits, er nú stjórnarformaður félagsins. Hann situr í stjórninni fyrir hönd Mannvits, sem á 7 prósenta hlut í GGE.
Íslandsbanki á 48 prósent hlut í fjárfestingarsjóðnum Glaciel Renewable Energy Fund sem á rúmlega 40 prósent í GGE. Lífeyrissjóðir eiga um 40 prósent í fjárfestingarsjóðnum, samkvæmt heimildum mbl.is, og í krafti þess eignarhlutar ætla þeir að fá einn mann í stjórn.
Landsbankinn ætlar að fá tvo menn í stjórn þar sem félagið hefur yfirtekið Renewable Energy Resource, félags í eigu Atorku, sem fer með um 40 prósent hlut í GGE.
GGE á 55 prósent hlut í HS orku en miklar deilur hafa staðið um fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi þess félags. Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hyggst kaupa 32 prósenta hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku en lokaákvarðanir verða að líkindum teknar á stjórnarfundi OR, sem stendur nú yfir.