Almennt góð reynsla af kvótakerfum

mbl.is

„Kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum er samnefnari þeirra framfara sem orðið hafa í fiskveiðum og stjórnun þeirra,“ sagði dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands,  m.a. í erindi sínu á ráðstefnu um skilvirka fiskveiðistjórnun.

Á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna segir að Ragnar hafi í erindi sínu komið inn á árangur af kvótakerfum við stjórnun fiskveiða. Hann sagði reynsluna af þeim almennt góða og að þau hefðu aukið arðbærni veiða og skilvirkni atvinnugreinarinnar. Þannig beittu 15 af helstu fiskveiðiþjóðum heims kvótakerfi til þess að stýra heildaraflamagni. Nærri léti því að um 20-25% alls heildarafla í heiminum væri veiddur með kvótakerfi sem stjórntæki.

Ragnar sagði helstu kosti kvótakerfis með framseljanlegum aflaheimildum góða nýtingu á heildarafla, aukna hagkvæmni og verðmæti afla, samfara því sem dregið væri úr sóknarþunga. Þá væri í kerfinu innbyggður hvati til þess að ganga vel um auðlindina og hafið, þar sem útgerðir væru í reynd að gæta að eigin verðmætum og reyna að auka þau.

Ragnar sagðist telja að með framseljanlegum aflaheimildum í kvótakerfi væri í raun búið að leggja grunn að því að sjávarútvegurinn bæri sjálfur ábyrgð á stjórn veiða.

Vefur LÍÚ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert