Leyniskýrslur frá tímum síðari heimsstyrjaldar, sem breska leyniþjónustan, MI5, hefur nýlega birt sýna að Þjóðverjar óttuðust að árás flota bandamanna á meginlandið yrði gerð frá Íslandi. Þess vegna sendu þeir þrjá njósnara til Íslands, þar á meðal tvo Íslendinga, til að fylgjast með ferðum herskipa en en þeir voru handsamaðir á Austurlandi.
Fjallað er um málið í breska blaðinu Daily Telegraph í dag og er þar vitnað til skýrslu M15. Þar segir að bæði Þjóðverjar og Bandamenn hafi á þessum tíma talið Ísland hernaðarlega mikilvægt og Þjóðverjar hafi sent njósnara til landsins til að safna veðurupplýsingum og senda til Luftwaffe, þýska flughersins.
En í maí 1944 hafi Þjóðverjar verið orðnir sannfærðir um, að flotaárás á þýska herinn myndi hefjast á Íslandi. Þess vegna ákváðu þeir að senda þrjá njósnara til Íslands til að fylgjast með ferðum skipa og herja og reyna þannig að koma í veg fyrir hugsanlega innrás Bandamanna í Frakkland.
Selveiðimaður sá njósnarana
Þrír leyniþjónustumenn sem hétu Miller, Hoan og Frick, sátu að snæðingi á hóteli sínu í Seyðisfirði að kvöldi 5. maí 1944 þegar þeir fréttu af þessum áformum Þjóðverja. Íslenskur selveiðimaður hafði nefnilega séð til grunsamlegra mannaferða nálægt Borgarfirði eystri.
Mennirnir reyndu að koma boðum til herskipa, sem voru skammt undan austurströndinni en var sagt, að það myndi taka langan tíma fyrir skipin að sigla að landinu. Þá yrðu mennirnir væntanlega búnir að fela sig á hálendinu.
Leyniþjónustumennirnir fengu því selveiðimanninn til að fylgja sér á staðinn, fengu lánaðan bát og sömu nótt tóku þeir land þar sem mennirnir grunsamlegu höfðu sést. Þeir gengu í snjónum um nóttina og fylgdu óljósri slóð sem njósnararnir höfðu skilið eftir sig. Loks, klukkan 6 morguninn eftir, sáu þeir mennina.
„Við spenntum byssur okkar og hröðuðum ferðinni," segir í skýrslunni, en ekki kemur fram hver skrifaði hana. Leyniþjónustumennirnir voru fljótir að ná mönnunum þremur á sitt vald og þeir játuðu fljótlega að vera þýskir hermenn en sögðust aðeins vera að safna veðurupplýsingum.
Tveir Íslendingar og einn Þjóðverji
Í skýrslunni kemur síðan fram, að Ernst Fresenius, dyggur nasisti, hafi þó verið eini Þjóðverjinn í hópnum. Hinir tveir, Hjalti Björnsson og Sigurður Júlíusson, hafi verið Íslendingar á mála hjá þýska hernum.
Leyniþjónustumennirnir fóru með fangana í bóndabæ í um 5 km fjarlægð. Þar stóðu Miller og Frick vörð en Hoan snéri til baka til að leita að fjarskiptabúnaði, sem mennirnir höfðu falið. Í ljós kom, að njósnararnir voru með 9 þúsund sterlingspund á sér auk Bandaríkjadala og þýskra marka.
Það tók sex yfirheyrslulotur að leiða í ljós, að mennirnir þrír voru í raun þjálfaðir þýskir njósnarar sem ætluðu að afla upplýsinga um hreyfingar herfylkja og herskipa á Austfjörðum. Þeir höfðu farið á námskeið í sérstökum skóla Þjóðverja í Ósló þar sem þeir lærðu dulmálsletur, dulmál og skemmdarverk.
Íslendingarnir tveir veittu að lokum upplýsingar um þá, sem ráku skólann, hvað þeir hefðu lært þar og þeir drógu jafnvel upp kort af skólabyggingunni. En Þjóðverjinn Fresenius var erfiðari viðfangs og illa gekk að fá hjá honum upplýsingar um senditíðni og dulmál, sem hann ætlaði að nota til að koma upplýsingum til Þýskalands.
Bretum tókst þó að koma boðum til Þjóðverja og létu líta út fyrir að þau væru komin frá Fresenius. Þá fundu þeir annan útvarpssendi, sem falinn hafði verið í fjallshlíð.
Illa undirbúinn leiðangur
Í skýrslunni segir, að þessi leiðangur Þjóðverja hafi verið illa undirbúinn og varla hafi verið tími til að semja haldbæra sögu, sem njósnararnir gæru haft að yfirvarpi yrðu þeir gripnir. Þeim hafði þó verið sagt að játa, að vera þýskir njósnarar að afla veðurupplýsinga í þeirri von, að hið raunverulega verkefni þeirra myndi ekki uppgötvast.
Þá leiddi rannsókn á senditækjum þeirra í ljós, að þau voru hálfgerð hrákasmíð. Var það haft til marks um, að mjög væri farið að sverfa að þýska hernum.
Leyniþjónustumennirnir afhentu Bandaríkjaher á Íslandi mennina þrjá og í lok skýrslunnar kemur fram að þeir hafi verið fluttir í fangabúðir.
Lokaorð skýrslunnar eru þessi:
„Það eru óljósar vísbendingar um að Þjóðverjarnir kunni að þykja Fresenius nægilega mikilvægur til að reyna að flytja hann aftur til Þýskalands með kafbáti. Ég tel þó að Þjóðverjarnir muni á endanum ekki telja það þess virði að reyna að endurheimta þessa misheppnuðu njósnara og tilraunir til að sækja þá í kafbáti eru dæmdar til að mistakast.
Í skýrslu minni frá 22.5.44 sagði ég að hugsanlega yrði ákveðið að þessi maður skyldi dreginn fyrir herrétt og skotinn. Ég sé í dag enga ástæðu til að breyta þeirri skoðun," segir skýrsluhöfundurinn ónafngreindi.