Aukning Fjarðaáls ekki háð umhverfismati

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Framleiðsluaukning Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði er ekki háð mati á umhverfisáhrifum, samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar. Alcoa hyggst auka framleiðsluna í Reyðarfirði um allt að 14 þúsund tonn í áföngum á næstu mánuðum, í allt að 360 þúsund tonn á ári.

Alcoa Fjarðaál hyggst auka framleiðslugetu núverandi álvers að Hrauni í Reyðarfirði, Fjarðabyggð, úr 346.000 tonnum í allt að 360.000 tonn á ári. Fyrirtækið hefur aflað sér 40 MW raforku af umframorkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Alcoa Fjarðaál telur sig geta aukið framleiðslu sína sem þessu nemur með aukningu á straumstyrk og bættri nýtingu kera. Ekki er þörf á stækkun kerskála eða annarra mannvirkja og því kallar framleiðsluaukningin ekki á byggingarframkvæmdir.

Aukin framleiðsla hefur í för með sér að orku- og hráefnisþörf eykst að sama skapi. Sjóflutningar munu aukast og útblástur einnig. Ekki er gert ráð fyrir að fjölga starfsfólki vegna breytinganna. Framleiðslan verður aukin í áföngum en gert sé ráð fyrir að ná allri aukningunni árið 2010 eða 2011.

Mengun mun aukast sem nemur aukinni framleiðslu, eða um 4%. Þá hyggst Alcoa Fjarðaál nota skaut með meira af brennisteini (2,14%) en áður (1,80 %) var ráðgert. Fyrir vikið mun útblástur brennisteins aukast um meira en 40% eftir breytinguna. Samkvæmt greinargerð Alcoa mun losun á brennisteini aukast í heild úr 4595 tonnum á ári í 6502 tonn á ári eða um rúmlega 40%. Losun á rykbundnu flúoríði í heild mun aukast um 16%.

Aukin framleiðsla kallar á nýtt starfsleyfi fyrir Alcoa Fjarðaál. Umhverfisstofnun hefur þegar móttekið umsókn frá Alcoa Fjarðaáli um
breytingu á starfsleyfi vegna áformaðrar framleiðsluaukningar og verður vinna hafin við yfirferð þeirrar umsóknar, nú þegar ákvörðun um matskyldu liggur fyrir.

Vefur Skipulagsstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert