Fer fram á tugi milljóna vegna læknamistaka

Jan Gunnar Langås.
Jan Gunnar Langås. mbl.is/RAX

eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

„ÉG HEF meira og minna verið í aðgerðum undanfarin tvö ár og ekkert getað unnið allan þann tíma,“ segir Jan Gunnar Langås, norskur pípulagningamaður búsettur hérlendis frá 2002, sem segir farir sínar ekki sléttar af íslensku heilbrigðis- og félagskerfi. Síðla árs 2007 fór hann á spítala vegna þvagfærasýkingar þar sem settur var upp þvagleggur hjá honum með alvarlegum afleiðingum fyrir heilsu hans og lífsgæði.

Starfsmaður Landspítalans í Fossvogi setti upp legginn, en Jan Gunnar segir hann hvorki hafa verið sérfræðingur né læknismenntaður. „Það kom í ljós að hann hafði ekki sett upp slíkan legg áður,“ segir hann og að við aðfarir starfsmannsins hafi þvagrásin eyðilagst. „Í framhaldi fékk ég sýkingu og drep í liminn og var sendur á Landspítalann við Hringbraut og var þegar settur í aðgerð.“

Kynlífið í molum

Daginn eftir hafi læknar sagt honum að um læknamistök hefði verið að ræða. „Síðan hef ég farið í aðgerð eftir aðgerð. Í einni þeirra fékk ég mænudeyfingu sem leiddi til þess að taugar í fótunum sködduðust svo ég hef ekki getað gengið án sterkra verkjalyfja.“ Allan þann tíma hefur hann ekki getað unnið. „Ég gerði tilraun til þess í fyrra því læknarnir vildu láta á það reyna. Þegar ég kom til viðskiptavinanna hafði ég ekki hugmynd um hvers vegna ég var kominn því ég var svo uppdópaður af verkjalyfjunum.“

Hann segir að búið sé að úrskurða sig óvinnufæran til 2013 vegna þessa. „Ég hef unnið í 24 ár sem pípulagningamaður en veit ekki hvort ég mun nokkru sinni geta unnið við það aftur. Ég hafði t.d. hugsað mér að skreppa út til Noregs til að vinna þar í einhvern tíma svo ég gæti lagt fyrir peninga til að geta komið aftur heim og stofnað eigið fyrirtæki. En þeir draumar urðu að engu.“

Afleiðingarnar eru ekki síður alvarlegar fyrir hans persónulega líf að hans sögn. Þannig hefur hann ekki getað stundað kynlíf með eðlilegum hætti þennan tíma sem m.a. leiddi til þess að upp úr sambúð hans og íslenskrar konu slitnaði. „Sennilega mun ég þurfa á stinningarlyfjum að halda það sem eftir er. Limurinn hefur líka styst svo mér finnst ég ekki sérlega aðlaðandi lengur.“ Þá getur hann ekki haft þvag- og sáðlát á eðlilegan hátt. „Lífsgæðin eru að engu orðin.“

Næstum gjaldþrota

Vegna alls þessa ætlar Jan Gunnar að fara fram á skaðabætur vegna læknamistaka. „Ég er búinn að fá mér lögfræðing í Noregi, enda hef ég rétt á ókeypis lögfræðiaðstoð í slíku skaðabótamáli þar.“ Hann segir lögfræðinginn telja að hann eigi rétt á skaðabótum upp á tugi milljóna, en enn hafi þeir ekki ákveðið hversu há bótakrafan verður.

Hljóðið er þungt í Jan þegar kemur að þeirri fjárhagsaðstoð sem hann hefur fengið frá því hann veiktist. „Mér hefur gengið mjög illa að fá peninga í gegnum kerfið og er hreinlega að verða gjaldþrota,“ segir hann og útskýrir að mánaðarlega fái hann rúmar 100 þúsund krónur í félagsbætur til að lifa af. Hann hafi þurft að fá húsgögn og annað lánað og vantar ýmislegt sem nauðsynlegt telst í heimilishaldi. „Ég á t.d. ekki þvottavél og hef þurft að ganga á milli húsa til að fá að setja í vél hér og þar.“

Nýlega ákvað Tryggingastofnun að Jan Gunnar ætti rétt á um 20 þúsund krónum á mánuði og greiddi honum þá fjárhæð tvö ár aftur í tímann. „Ég fékk 370 þúsund krónur sem ég notaði til að greiða upp skuldir. Þegar félagsmálayfirvöld komust að því var mér gert að greiða þeim þessa upphæð til baka, svo nú skulda ég þeim pening.“ Hann segir að sér hafi nýverið verið sagt að hann þurfi að leita til Noregs til að fá sjúkrapeninga þaðan. „Mér er sagt að ég hafi ekki nægileg tryggingaréttindi hérlendis, en ég hélt að þau ættu einfaldlega að flytjast á milli Norðurlandanna.“

Jan Gunnar segir heilbrigðis- og félagskerfið hafa algerlega brugðist í sínu tilfelli. „Það er eitt að glíma við heilsufarsvanda en að þurfa að berjast við félagskerfið að auki bætir ekki heilsuna, heldur gerir hlutina verri en þeir eru.“

Þrátt fyrir erfiðleikana hefur Jan Gunnar fullan hug á að búa hér áfram. „Ég elska Ísland og finnst mjög fínt og gott að búa hérna. Þetta er fullkomið land fyrir mig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert