Fóstureyðingum fjölgar

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Í fyrra voru skráðar 955 fóstureyðingar hjá konum með lögheimili á Íslandi, samkvæmt nýjum tölum landlæknisembættisins. Þetta er nokkru meira en árið 2007 en þá voru skráðar 905 fóstureyðingar hér á landi.

Árið 2008 voru framkvæmdar 13,8 fóstureyðingar á hverjar 1.000 konur á aldrinum 15–44 ára en voru 13,9 árið 2007. sé litið til fjölda fóstureyðinga miðað við hverjar 1.000 fæðingar þá voru þær ríflega 198 en 192 árið 2007.

Ófrjósemisaðgerðum fjölgaði einnig töluvert í fyrra, borið saman við árið 2007. Árið 2008 voru framkvæmdar 520 ófrjósemisaðgerðir hérlendis, 181 hjá konum og 339 hjá körlum. Þetta eru heldur fleiri aðgerðir en árið á undan en færri en árin 2005 og 2006. Sem fyrr fjölgar þeim körlum hlutfallslega sem gangast undir ófrjósemisaðgerðir en konum fækkar hins vegar.

Árið 2008 voru framkvæmdar 4,6 ófrjósemisaðgerðir á hverja 1.000 karla í aldurshópnum 25–54 ára en 2,8 ófrjósemisaðgerðir á hverjar 1.000 konur í sama aldurshópi.

Vefur landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert