Háskalegt að borga ekki

 

Fréttir berast nær daglega af fólki sem er hætt að borga eða ætlar að hætta að borga af lánunum sínum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherrra segist ekki fá þau skilaboð úr bankakerfinu að það sé minni greiðsluvilji en áður hjá almenningi. Þróun vanskila sé í raun frekar minni en búast megi við í svona erfiðum aðstæðum. Hann segir háskalegt að fólk sé hvatt til að grípa til óyndisúrræða  eins og að hætta að greiða. Fólk í erfiðleikum  ætti alltaf að leita fyrst eftir samstarfi við lánastofnanir og þeim úrræðum sem séu í boði. Það sé mikið ábyrgðarleysi að hvetja til uppgjafar eða greiðsluverkfalls. Slíkt leiði ófarnað yfir okkur öll, bæði þá sem eigi í hlut, þeirra vandamál aukist bara. Hann segist biðja menn að hugsa sinn gang áður en þeir hvetja til slíkra aðgerða.

Ráðherrann segir að ekki sé útilokað að ráðist verði í almennar afskriftir lána. Hann vilji hinsvegar sjálfur hvetja til raunsæis. Allar tillögur verði að vera hnitmiðaðar, viðráðanlegar og markvissar við þær aðstæður sem séu uppi. Þarna eigi í  hlut  Íbúðalánasjóður, ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir fyrir utan bankanna. Það hljóti því allir að sjá að það séu takmörk fyrir því hvað sé hægt að gera við slíkar aðstæður. Það þýði þó ekki að búið sé að útiloka neitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka