Hegðun Breta og Hollendinga ekki sæmandi

Hegðun Hollendinga og Breta gagnvart Íslandi í Icesave-málinu er ekki sæmandi ríkjasambandi sem leggur áherslu á samstöðu, segir Clemens Bomsdorf,  fréttaritari þýska blaðsins Die Zeit á Norðurlöndum í grein á vefsíðu blaðsins og vísar þar til Evrópusambandsins.

Bomsdorf segir, að Bretar og Hollendingar hafi neytt Íslendinga til að taka milljarða evra að láni en það fé fari hins vegar aldrei til Íslands heldur eigi að nota það til að bæta tap sparifjáreigenda í löndunum tveimur, sem hafi sett peningana sína inn á íslenska hávaxtareikninginn Icesave. 

Í sjálfu sér sé ekkert að segja við slíkum lánum enda ríki samningsfrelsi á alþjóðavettvangi. En í þessu tilfelli hafi ekki verið um neitt frelsi að ræða. Þótt Alþingi Íslendinga hafi á föstudag samþykkt að ábyrgjast lánið hafi það ekki annars kost.  

Ísland hafi skort hæfni, tíma og kraft í samningaviðræðum um lánin og það sé enn óljóst hvort ríkjum á borð við Ísland séu í raun skylt að ábyrgjast tapaðan sparnað. Evrópureglur á þessu sviði hafi ekki verið samdar fyrir sérstök tilfelli eins og það íslenska.  

Engu að síður krefjist Bretar og Hollendingar að Íslendingar borgi brúsann og hafi beitt til þess ýmsum þvingunum, svo sem breskum hryðjuverkalögum og áhrifum sínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Nú hafi löndin tvö náð markmiðum sínum en Íslendingar hafi litla möguleika á að greiða skuldina að fullu. 

Bomsdorf segir að ekki sé hægt að kenna Íslendingum einum um það hvernig fór fyrir íslensku bönkunum. Hvetur blaðamaðurinn til þess, að Evrópubúar hjálpi Íslandi við að koma á pólitískum stöðugleika að nýju og endurreisa efnahag landsins með því að dreifa skuldunum. Bretar, Hollendingar og Íslendingar ættu að setjast að samningaborðinu að nýju og gera nýja lánasamninga frá grunni. 

Greinin í  Zeit Online


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka