Innkallanir vegna greiðsluaðlögunar ekki á vanskilaskrá

mbl.is/ÞÖK

Creditinfo Lánstraust hefur nú breytt skráningarferli sínu þannig að innköllun vegna nauðasamninga til greiðsluaðlögunar verður ekki skráð á vanskilaskrá.

„Þessi mál flokkast undir upplýsingar um „opinberar gjörðir“. Til þess að kveða skýrar á um að innköllun sé ekki hluti upplýsinga í vanskilaskrá verða þær birtar undir skýringunni „Úr Lögbirtingablaði“ og þar undir kaflanum „Sérstök úrræði“,“ segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts.

Rakel segir jafnframt að þessa dagana sé unnið að breytingum hjá Creditinfo Lánstrausti sem ætlað er að tryggja hagsmuni lántakenda, ekki aðeins með tilliti til skráninga á ýmsum upplýsingum, heldur einnig aðgengi almennings að upplýsingum eða aðstoð sem varðar þeirra mál.

„Það er til dæmis mikilvægt að almenningur skilji tilgang innkallana. Hann er að upplýsa kröfuhafa um að þeim beri að senda kröfulýsingar áður en tiltekinn frestur rennur út. Þessar upplýsingar eru birtar í Lögbirtingablaðinu í formi auglýsingar sem síðan er skráð hjá Creditinfo Lánstrausti,“ segir Rakel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka