Kennurum yfir fimmtugu fjölgar

Kennslustund í Menntaskóla Borgarfjarðar.
Kennslustund í Menntaskóla Borgarfjarðar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Framhaldsskólakennarar voru fjölmennastir í aldurshópnum 50-59 ára eða 32,1% starfsmanna við kennslu í nóvember 2008, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Kennurum í elstu aldurshópunum hefur fjölgað á meðan fækkað hefur í yngstu aldurshópunum. Nú er tæplega helmingur kennara við framhaldsskóla 50 ára eða eldri.

Haustið 2008 var 2.581 starfsmaður í framhaldsskólum landsins í 2.563 stöðugildum, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þar af komu 1.911 starfsmenn að kennslu í 1.987 stöðugildum.  Konur eru fleiri en karlar meðal starfsmanna í framhaldsskólum, hvort heldur eru taldir allir starfsmenn eða einungis starfsmenn við kennslu.

Breytingar á fjölda starfsmanna í framhaldsskólum milli ára eru óverulegar. Í framhaldsskólum landsins teljast nú 30 fleiri starfmenn en fyrir ári síðan. Þar af hefur starfsmönnum við kennslu fjölgað um 12 á milli ára. Stöðugildum í framhaldskólum landsins hefur fjölgað um 5 á milli ára sé miðað við alla starfsmenn framhaldsskóla. Þegar einungis eru taldir starfsmenn sem koma að kennslu hefur stöðugildum fjölgað um tvö.

Fleiri konur í færri stöðugildum
Konur eru fleiri en karlar meðal starfsmanna í framhaldsskólum, hvort heldur eru taldir allir starfsmenn eða einungis starfsmenn við kennslu. Skólaárið 2008-2009 voru konur 58,3% allra starfsmanna í framhaldsskólum og 52,7% starfsmanna við kennslu. Þegar talin eru stöðugildi starfsmanna við kennslu kemur hins vegar í ljós að stöðugildi karla við kennslu eru 1.019 (51,3%) á móti 967 (48,7%) stöðugildum kvenna. Karlar vinna því fremur yfirvinnu en konur sem eru frekar í hlutastörfum.

Nærri 80% kennara í framhaldsskólum hafa kennsluréttindi
Alls höfðu 78,2% starfsmanna við kennslu í nóvember 2008 kennsluréttindi. Þegar talað er um réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara. Réttindakennurum í framhaldsskólum hefur fjölgað á undanförnum árum. Skólaárið 2000-2001 var hlutfall réttindakennara í framhaldsskólum 71,8%. Réttindakennurum á framhaldsskólastigi hefur því fjölgað um 6,4 prósentustig á þessum tíma.

Framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins hafa löngum haft hlutfallslega færri réttindakennara innan sinna vébanda en skólar á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2006 snerist þetta við en þá voru hlutfallslega fleiri réttindakennarar starfandi í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2008 höfðu 77,9% kennara á höfuðborgarsvæðinu réttindi og 78,7% kennara á landsbyggðinni.

Kennurum yfir fimmtugt fjölgar
Framhaldsskólakennarar eru fjölmennastir í aldurshópnum 50-59 ára eða 32,1% starfsmanna við kennslu í nóvember 2008. Kennurum í elstu aldurshópunum hefur fjölgað á meðan fækkað hefur í yngstu aldurshópunum. Í febrúar árið 2000 voru kennarar 50 ára og eldri 39,3% starfandi kennara en í nóvember 2008 voru þeir 47,7%. Á sama tíma fækkaði kennurum undir fertugu úr 27,4% í 23,1% kennara.

Vefur Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka