Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Elkem Ísland ehf. sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Nýja starfsleyfið nær yfir hugsanlegar breytingar á starfsemi fyrirtækisins, eins og framleiðslu á sólarkísli. Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 1. september 2025.
Elkem er með nýju starfsleyfi heimilt að framleiða allt að 190 þúsund tonn af 45 - 100% kísil og kísiljárni og allt að 45 þúsund tonn af kísilryki í ljósbogaofnum. Hluti af framleiðslunni fer í eftirvinnslu. Með eftirvinnslu er átt við framleiðslu á kímefnum með íblöndun magnesíum og fleiri málma, hreinsun á kísiljárni og hreinsun á kísil til að mæta ströngustu kröfum um hreinleika. Einnig er heimil förgun á eigin úrgangi, rekstur verkstæða, varaaflvéla og annarrar þjónustu fyrir eigin starfsemi.
Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfinu á tímabilinu 29. maí til 23. júlí 2009 og bárust fjórar athugasemdir. Umhverfisstofnun segir innsendar athugasemdir hafa verið mjög ítarlegar og vel unnar. Nokkrar breytingar voru gerðar á áður auglýstri tillögu. Þannig verður Hvalfjarðarsveit nú boðið á árlegan samráðsfund rekstraraðila með Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Umhverfisstofnun en sveitarfélagið lét í ljós áhuga á frekari aðkomu að umhverfismálum hjá Elkem. Auk þess verður opinn kynningarfundur árlega en í tillögunni var gert ráð fyrir þeim annað hvert ár.
Í nýju starfsleyfi Elkem má nú finna skýringarákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði Umhverfisstofnunar. Ákvæði um orkunýtingu inniheldur nú frekari skýringu á kröfum. Þá var ákvæði hert um geymslu fljótandi efna. Fallist var á rýmkun losunarmarka fyrir ársmeðaltal brennisteinsdíoxíðs þannig að þau verði óbreytt frá fyrra starfsleyfi. Í því sambandi taldi Umhverfisstofnun að athuguðu máli að Elkem hefði lítið svigrúm til úrbóta.