Fréttaskýring: Skipulögð brotastarfsemi bönnuð

Félagsheimili Fáfnis í Hafnarfirði.
Félagsheimili Fáfnis í Hafnarfirði.

Breytingum á almennum hegningarlögum er ætlað að taka á skipulagðri glæpastarfsemi, líkt og þeirri sem talin er geta fylgt stofnun Hells Angels-félagsdeildar hér á landi. Frumvarp um slíkar breytingar var lagt fram á Alþingi í þriðja sinn undir lok júlímánaðar. Meðferð málsins var þá frestað en Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja frumvarpið fram að nýju á haustþingi.

„Þar er lagt til að nýtt refsiákvæði komi inn í almenn hegningarlög,“ segir Ragna og kveður refsiréttarnefnd dómsmálaráðuneytisins hafa komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að lögfesta sérstakt refsiákvæði í almenn hegningarlög um bann við þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi.

Fjallaði nefndin um þetta álitaefni í sambandi við fullgildingu á Palermó-samningnum gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá árinu 2000.

Félagsskapur þriggja eða fleiri

Í frumvarpinu segir ennfremur að: ,,sá er sammælist við annan mann um að fremja verknað sem varðar minnst 4 ára fangelsi og framkvæmd hans er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum, nema brot hans varði þyngri refsingu samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara eða öðrum lögum.“

Fáfnir orðinn félagsdeild Vítisengla 2010?

Skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem birt var í febrúarmánuði sl., greindi frá að Fáfnir hefði þá þegar hlotið viðurkenningu sem „stuðningsklúbbur“ Hells Angels hér á landi.

„Þar með hefur hópur manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök. Fyrir liggur að félagar í Fafner MC-Iceland stefna að fullri aðild að Hells Angels-samtökunum,“ segir í skýrslunni.

Tilraunir vítisengla til að ná fótfestu á Íslandi má rekja a.m.k. sjö ár aftur í tímann og hafa á þeim tíma hópar erlendra liðsmanna vítisengla ítrekað verið stöðvaðir við komu sína til Íslands. Er lögregla þeirrar skoðunar að þessar aðgerðir hafi tafið fyrir að Fáfnir öðlaðist fulla aðild að samtökunum.

Yfirvöld hér á landi hafa átt í nánu samstarfi við hin Norðurlöndin, en þónokkuð er síðan ríkislögreglustjórar Norðurlandanna komu sér saman um þá stefnu að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi mótorhjólagengja.

Aukin skipulögð glæpastarfsemi hefur enda, að sögn embættis Ríkislögreglustjóra, alls staðar fylgt í kjölfarið þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum.

Líta á sem sitt svæði

Heimildir Morgunblaðsins herma engu síður að menn hafi á orði að dregið hafi úr innbrotum í fyrirtæki í iðnaðarhverfinu í næsta nágrenni félagsheimilisins.

Þekkt sé erlendis frá að mótorhjólagengi líti á svæðið í næsta nágrenni við sitt félagsheimili sem sína eign og það kunni ekki góðri lukku að stýra fyrir brotamenn að láta greipar sópa innan þess svæðis.

1

Fyrsta skref til að verða félagi í Vítisenglunum er að vera skilgreindur sem áhangandi. Áhangendum er boðið að taka þátt í vissum viðburðum eða hitta vítisenglana á þekktum mótsstöðum.

2

Annað skref á þeirri löngu vegferð að öðlast félagsaðild að vítisenglunum er sem stuðningsfélagi og varir sú staða yfirleitt í eitt til tvö ár.

3

Þriðja skref er svo sem væntanlegur félagi. Þeir taka þátt í vissum félagsathöfnum, en hafa ekki atkvæðisrétt á meðan hæfni þeirra fyrir fulla félagsaðild er metin.

4

Til að verða fullgildur félagi þarf væntanlegur félagi að hljóta atkvæði annarra félaga og þarf yfirleitt meira en einfaldan meirihluta til. Liggi samþykki fyrir fer fram formleg innsetning þar sem væntanlegur félagi staðfestir tryggð sína í garð vítisenglanna.

heimild Wikipedia

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert