Skothvellir í Salahverfi

Fólki bregður eðlilega í brún þegar það heyrir skothvelli í …
Fólki bregður eðlilega í brún þegar það heyrir skothvelli í íbúðarhverfi snemma morguns. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Jim Smart

Íbúar í Salahverfi í Kópavogi og Seljahverfi í Breiðholti vöknuðu við skothvelli í Salahverfinu á sjötta tímanum í morgun. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tilkynningar um skothvellina en ekki liggur fyrir hver eða hverjir voru  þarna á ferð.

Íbúi í Seljahverfi, sem liggur við Salahverfið, hafði samband við mbl.is og sagði, að það hefði verið óþægilegt að vakna um kl. 5:30 í morgun við að heyra skothvelli í hverfinu. Þetta hafi staðið yfir með hléum í um hálftíma.

Hann hafi í fyrstu talið að þarna hefði meindýraeyðir verið að störfum en hafi nú heimildir fyrir því að þarna hafi skotveiðimenn verið á ferð að skjóta gæsir á flöt við kirkjugarðinn í hverfinu. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest.

Þá segist hann einnig hafa heimildir fyrir því að kylfingar hafi heyrt skothvelli við Korpuvöll sl. fimmtudagskvöld. Þeir hafi síðan séð tvo menn í skurði að skjóta á gæsahópa, sem voru á flöt við tilraunastöðina á Korpu.   

Sigurbjörn Víðir Eggertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við mbl.is að tilkynningar um skothvelli hafi borist lögreglunni morgun. Talið sé að þarna hafi meindýraeyðir á vegum Kópavogsbæjar verið á ferð.

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir hins vegar að svo hafi ekki verið.

Eðlilegt að láta vita

Aðspurður segir Sigurbjörn að það sé afar óvenjulegt að menn séu byrjaðir að skjóta nálægt íbúðarhverfum svo snemma morguns. Það sé auk þess eðlilegt að gera þá kröfu til meindýraeyða með skotvopn að þeir láti lögregluna vita hvar þeir verði á ferðinni við iðju sína.

Sigurbjörn segist þekkja dæmi þess að skothvellir hafi nýverið heyrst um miðjan dag í hrauninu rétt við gatnamót Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar. Hann hafi sjálfur verið þarna á ferð og orðið mjög bylt við þegar hann heyrði hvellina. Í ljós hafi komið að þarna hafi meindýraeyðir verið á ferð að skjóta máva.

Það er aldrei of varlega farið með skotvopn.
Það er aldrei of varlega farið með skotvopn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert