Í dag tekur gildi reglugerð sem kveður á um að ferskar matjurtir í verslunum skuli merktar á umbúðum með upplýsingum um upprunaland.
Sama á að gilda um vörutegundir úr ferskum matjurtum, þar sem þeim er blandað saman og/eða þær skornar niður. Þegar um er að ræða vörutegund, þar sem ferskar matjurtir hafa uppruna í fleiri en einu landi, skal tilgreina nafn hverrar matjurtar og upprunaland hennar á umbúðum.
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, segir það fagnaðarefni að þessi reglugerð taki nú gildi. Þetta hafi verið baráttumál íslenskra garðyrkjubænda lengi. Hann segir að allt íslenskt grænmeti sé rækilega merkt, og þá fyrst og fremst með fánalitunum. Hins vegar hafi verið brögð að því að innflutt grænmeti hafi ekki verið merkt upprunalandi.
Bjarni hvetur neytendur til að fylgjast vel með því að verslanir fari eftir hinni nýju reglugerð. „Ég verð með þeim fyrstu í búðirnar til að fylgjast með því að farið sé eftir reglunum,“ segir Bjarni. sisi@mbl.is