Þýska fjármálaráðuneytið fylgist með því hvort íslensk stjórnvöld virði alþjóðlegar reglur gegn mismunun fjárfesta. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn lögmannsstofunnar Wilhelm Lachmair und Kollegen í München sem sérhæfir sig í að verja fjárfesta.
Í svari fjármálaráðuneytisins segir að í tengslum við umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu verði fylgst með því „hvort íslenska ríkisstjórnin virði alþjóðlega viðurkennda staðla á borð við bannið við mismunun“. Ráðuneytið tekur fram að „það eigi einnig við um meðferð íslenska ríkisins á þýskum fjárfestum af völdum íslensku bankakreppunnar. Stjórn sambandslýðveldisins mun eftir því sem við á taka tillit til samræmis í hegðun Íslands í öllum aðildarviðræðum“.
Þetta kemur fram í frétt á fjölmiðlagáttinni Presse Anzeiger. Þar segir að fram til þessa hafi tilraunir til að bæta þeim sem sköðuðust við hrun Landsbanka Íslands tjónið að mestu takmarkast við fjárfesta, sem lögðu fé á Icesave-reikninga bankans, og nú hafi Alþingi samþykkt að greiða Bretum og Hollendingum. Í fréttinni segir að Bretar og Hollendingar hafi nýtt sér aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu til að skapa þrýsting og nú geti fleiri gert slíkt hið sama. Því sé komin upp áhugaverð staða.
Haft er eftir Thorsten Krause, lögmanni hjá Wilhelm Lachmair, að með tilliti til þessa bakgrunns sé ráðlegt að setja fram kröfur á hendur Landsbankanum áður en frestur rennur út 30. október þannig að þær tapist ekki. Komi til svipaðrar skaðabótalausnar og í Icesave-málinu muni fjárfestar, sem ekki hafa tilkynnt kröfur sínar, sjá á eftir fé sínu í orðsins fyllstu merkingu, að sögn Krause.
Tekið er fram í fréttinni að Lachmair & Kollegen séu í samstarfi við íslenska lögmannsstofu til að tryggja skjólstæðingum sínum bestu þjónustu.